Fékk spjald fyrir að reyna að tefja :: Liðið mitt Jónas Aron Ólafsson Sauðárkróki

Jónas Aron Ólafsson er tvítugur knattspyrnumaður í Tindastól, lék alla leiki liðsins í sumar og er einn máttarstólpa liðsins. Í vetur dvelur hann á Akureyri og stundar nám í Háskólanum þar í bæ. Jónas er aðdáandi Arsenal í ensku úrvalsdeildinni og skipar sér þar með á bekk með afa sínum og nafna Jónasi Svavarssyni sem líklega hafði eitthvað með það að gera. Jónas Aron svarar spurningum í Liðið mitt að þessu sinni.
Hvert er uppáhalds liðið þitt í enska boltanum og af hverju? -Uppáhalds liðið mitt er Arsenal. Ég held að ég hafi byrjað að halda með þeim af því að afi Jónas er Arsenal maður og svo fannst mér skemmtilegt að fara í aðra átt en pabbi, sem er Man. Utd. maður. En fyrst og fremst spila þeir skemmtilegan bolta oftast nær.
Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? -Ég er alltaf rosalega bjartsýnn í þessu. Ég er að vonast eftir meistaradeildarsæti en ætli mínir menn endi þá ekki í 5. sæti.
Ertu sáttur við stöðu liðsins í dag? -Ekki nógu mikið. Sóknarleikurinn góður en varnarleikur liðsins oft eins og brandari. Það vantar ennþá fullt upp á hjá þeim til að verða topp topp lið, því miður. Hef trú á að þeir nái sér aftur upp innan skamms.
Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? Já, já, oft, sérstaklega við gömlu bekkjarbræður mína. Ef menn voru ekki sammála, þá var lítið lært.
Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar? -Það er aðeins einn sem kemur til greina, kóngurinn Thierry Henry. Það var sorgardagur þegar hann yfirgaf okkur og fór til Barcelona.
Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? -Já, einu sinni. Fór árið 2014 á Arsenal- Man. Utd. sem tapaðist 1-2 því miður. Hins vegar geggjuð ferð og ég á klárlega eftir að fara oftar.
Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? -Úff já, fullt af treyjum, derhúfum, húfum, klukku og svitabönd svo eitthvað sé nefnt. Ég er svo líka með Arsenal vegg í herberginu mínu með stóru Arsenal merki á og hillu sem geymir allskonar Arsenal dót.
Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? -Hef ekki látið reyna á það ennþá.
Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? -Pabbi reyndi mikið að fá mig á Man. Utd. vagninn, það gekk ekki sem betur fer.
Uppáhalds málsháttur? -Sjaldséðir eru hvítir hrafnar er góður.
Einhver góð saga úr boltanum? -Æfingaferðirnar standa mikið upp úr en annars er tímabilið á eldra ári í 4. flokki eftirminnilegur tími þar sem við unnum okkar riðil og fórum í úrslitakeppnina. Önnur góð er að við fórum tíu í leik til Ísafjarðar í 2. flokki. Enduðum leikinn svo níu.
Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? -Síðustu jól var ég að hjálpa til við jólahreingerninguna og var að ryksuga með tónlist í eyrunum, þá hafði Brynhildur systir mín tekið ryksuguna úr sambandi án þess að ég tæki eftir. Hún tók það náttúrulega upp á símann og ég var þarna að ryksuga, að ég hélt eins og auli. Gef henni það að þetta var mjög góður hrekkur.
Spurning frá Brynhildi: -Heimskulegasta spjald sem þú hefur fengið? -Örugglega þegar ég var að reyna að tefja, við áttum innkast og ég sparkaði boltanum í burtu og bað um annan bolta. Dómarinn hafði litla þolinmæði fyrir því og spjaldaði mig, var í banni í næsta leik á eftir.
Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? -Væri til í að sjá frænda minn Fannar Freyr Gíslason svara þessum spurningum.
Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? -Eru skórnir alveg komnir upp á hillu?
Áður birst í 44. tbl. Feykis 2019.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.