Fátt sem stoppar lið sem trúir ekki að það geti tapað
„Ég held að allir í kringum liðið séu ennþá hægt og rólega að ná utan um að við séum búnir að tryggja okkur sæti í 2. deild. Menn fögnuðu skiljanlega vel eftir leik og ég held að stuðningsmenn liðsins séu, eins og leikmenn og stjórn, ennþá í skýjunum með árangur sumarsins,“ segir Ingvi Rafn Ingvarsson, þjálfari knattspyrnuliðs Kormáks/Hvatar sem gerði sér lítið fyrir á laugardaginn og tryggði sér sæti í 2. deild með sigri á liði Augnabliks í lokaumferðinni. Það er besti árangur sem Kormákur/Hvöt hefur náð í fótboltanum og mögulega mesta afrekið í íþróttasögu Húnvetninga.
Fótboltasumarið hefur verið ævintýri líkast hjá Húnvetningum sem byrjuðu tímabilið þó ekki vel. Aco Pandurevic lét af störfum eftir þrjá leiki og Ingvi Rafn tók við taumunum. Eftir það small lið Kormáks/Hvatar í gírinn og hefur ekki litið til baka síðan. Það var reyndar strax ljóst að Húnvetningar ætluðu sér enga meðalmennsku, sönkuðu að sér sterkum leikmönnum, og í það minnsta tjáði fyrirliði liðsins, Sigurður Bjarni Aadnegard, blaðamanni Feykis í upphafi móts að stefnan væri sett á 2. deild. Sem tónaði ekki alveg við spár þjálfara liðanna í 3. deild en þar var niðurstaðan níunda sætið til handa Húnvetningum.
Það má eflaust færa rök fyrir því að neðri deildirnar í fótboltanum hafi aldrei verið sterkari en nú. Liðin flest stútfull af vel þjálfuðum og góðum fótboltamönnum. Það er langt því frá sjálfgefið að ná góðum árangri. Það má því spyrja Ingva Rafn hvort hann telji að þetta sé
mesta íþróttaafrekið í húnvetnskri íþróttasögu. „Ég verð að viðurkenna að ég er ekki nógu vel að mér í húnvetnskri íþróttasögu en ég myndi halda að þetta væri allavega ofarlega á lista í þeirri íþróttasögu,“ segir hann.
Áttirðu von á því þegar þú tókst við liðinu snemma í sumar að þú værir að fara með þennan hóp upp í 2. deild? „Hreinskilið svar er nei. Ég vissi hins vegar að við værum með góðan leikmannahóp sem væri hægt að vinna með. Í byrjun var mitt helsta markmið að fá leikmenn til að vinna sem lið og fá gleði inn í hópinn. Síðan gerist það bara að eftir nokkra sigurleiki í röð að það byggist upp stemning og sjálfstraust sem getur skilað liðum ansi langt. Leikmenn fóru að trúa að þeir gætu ekki tapað fótboltaleikjum og þegar sú tilfinning er til staðar, er oft á tíðum fátt sem stoppar þannig lið. Það má því segja að stemningin og trúin í liðinu hafi haldist út sumarið, þar sem árangurinn var líklega framar björtustu vonum.“
Hverju þakkar þú helst þennan árangur? „Bæði leikmenn og stjórn settu mikinn metnað í sumarið, með það að markmiði að gera betur en á síðasta tímabili. Við náðum að setja upp góðan æfingahóp með 20-25 leikmönnum á nánast hverri einustu æfingu. Það er mikill munur frá því sem áður var og það sást augljóslega á árangri liðsins. Allir sem komu að þessu eiga sinn þátt í að liðið endaði þar sem það endaði. Svo er hægt að tala um trú, hugarfar og sjálfstraust sem þarf að vera til staðar til að svona árangur náist. Það vantaði ekkert upp á það þegar fór að líða á sumarið. Það var ekki langt liðið á mótið þegar við vorum komnir í toppbaráttu og við héldum okkar þar restina af mótinu sem sýnir að leikmenn misstu aldrei trúna á verkefnið, sama hvaða áföllum liðið varð fyrir og voru þau nú nokkuð mörg.“
Voru menn með taugar þandir áður en leikur hófst eða er gríðarlegt sjálfstraust í hópnum? „Ég sá strax á leikmönnum þegar við mættum inn í klefa fyrir leik að þetta yrði góður dagur. Kannski smá stress en aðallega spenna og tilhlökkun í að spila þennan lokaleik fyrir framan fullt af stuðningsmönnum sem voru mættir í stúkuna. Við mættum fullir sjálfstrausts inn í leikinn og að mér fannst náðum yfirhöndinni snemma með tveimur góðum mörkum og sigldum svo sigrinum heim.“
Hvernig leggst svo keppni í 2. deild í þig, hver er helsta áskorunin framundan? „2. deild leggst virkilega vel í mig eftir tvö góð ár í þeirri þriðju. Ég held að allir íþróttamenn vilji spila á eins háu leveli og hægt er hverju sinni og það er bara frábært fyrir bæjarfélögin tvö, Blönduós og Hvammstanga, að þau eigi núna lið í 2. deild. Ég held að helsta áskorunin fyrir næsta sumar sé að vera með leikmannahópinn nánast tilbúinn ekki seinna en í janúar/febrúar. Ég tel að það séu margir leikmenn sem voru í liðinu í sumar sem geti tekið skrefið upp í 2. deild og gert góða hluti. Svo vonandi náum við að stækka íslenska kjarnann af leikmönnum í bland við góða erlenda leikmenn. Ef það tekst ættum við að mæta til leiks með stærri og betri leikmannahóp á næsta ári og vonandi gert góða hluti,“ segir Ingvi Rafn. Aðspurður segir hann ekki komið á hreint hver þjálfi liðið á næstu leiktíð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.