Fangageymslur fullar á Sauðárkróki

Það voru snar handtök lögreglunnar á Sauðárkróki sem urðu til þess að í dag voru handteknir sex eintaklingar í Skagafirði  og eru því fangageymslur lögreglunnar á Sauðkróki troðfullar. 
Dagurinn byrjaði með því að lögreglan fékk ábendingu um að átt hefði verið við hraðbanka í Varmahlíð. Að sögn lögreglu var þarna um vana menn að ræða og greinilegt að tilgangurinn var einn og aðeins einn. Að ræna bankann.
Ræningjarnir höfðu þó ekki erindi sem erfiði. Þar næst barst ábending um bil sem ekið var eftir Sauðárkróksbraut í átt að Sauðárkrók. Ábendingin barst vegna þess að númeraplata bílsins snéri öfugt. Er bíllinn var stöðvaður kom í ljós að tvær ungar stúlkur voru í bílnum. Voru þær í annarlegu ástandi og gátu lítið gefið skýringar á eignarhaldi bílsins og ferðum sínum yfir höfuð. Er ökumaður bílsins grunaður um akstur undir árhifum fíkniefna. Þá kemur í ljós að bíllinn sem stúkurnar óku er samskonar bíll og sást í eftirlitsmyndavél hraðankans. Sem varð til þess að lögreglan komst á slóð tveggja manna sem hún síðan handtók  í sumarhúsi við Varmahlíð.

Í framhaldinu var fenginn hundur til þess að leita í sumarhúsinu. Á meðan lögreglan var að leita kemur að bíll sem væntanlega ætlaði að hitta fólkið sem dvaldi í sumarhúsinu.  Í þeim bíl var ætlað þýfi sem af lýsingum kemur saman við innbrot á Akureyri. Í þessum bíl voru tveir ungir menn og voru þeir báðir handteknir auk þess sem ökumaður bílsins er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. .

Allt er þetta fólk með langan afbrotaferil að baki. Unnið er að rannsókn málsins og beðið eftir að unnt sé að taka skýrslur af fólkinu. -Það má segja að í dag hafi árvökul vegfarandi orðið til þess að hrinda af stað atburðarrás sem aftur leiddi til handtöku þessara sex einstaklinga, segir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki. -Þetta segir okkur hversu mikilvægt það er fyrir lögregluna að fá ábendingar frá borgurunum. Þó svo að hluturinn líti ekki út fyrir að vera merkilegur þá getur hann hæglega verið púslið sem lögregluna vantar eins og sýndi sig í dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir