Fékk harðfisk í jólapakkann!
ÉG OG GÆLUDÝRIÐ - Elísa Bríet og hundurinn Dimma Lind
Á Skagaströnd er lítill fallegur hundur sem heitir Dimma Lind og er af tegundinni Silky terrier. Dimma Lind er fimm ára og er eigandi hennar Elísa Bríet Björnsdóttir, 13 ára, dóttir Þórunnar Elfu Ævarsdóttur og Björns Sigurðssonar. Elísa eignaðist Dimmu þegar fjölskyldan var í Reykjavík og mamma hennar var að velta því fyrir sér hvort þau ættu kannski að fá sér hund. Eftir mikið suð í Elísu lét Þórunn undan og duttu þau heldur betur í lukkupottinn með hana Dimmu sem þau fengu í Keflavík.
Aðeins um tegundina - Silky terrier hundar eru mjög orkumiklir, bráðgáfaðir og þurfa mikla athygli. Þeir fylgjast mjög vel með öllu og láta ókunn hljóð
ekki framhjá sér fara. Þeir eiga það til að vera þrjóskir en eru samt alltaf tilbúnir til að gera hvað sem er til að fá athyglina. Þessi tegund vill vera miðpunktur alheimsins og unir sér best innan um fjölskylduna sína og tekur virkan þátt í heimilishaldinu.
Hvað er skemmtilegast og erfiðast við Dimmu? „Það sem mér finnst skemmtilegast við hana er að hún er mjög mikill leikhundur en hún getur líka verið mjög róleg og þá er svo gott að hún vill kúra hjá manni. Ef maður biður hana um að sækja póstinn eða tuskudýrið sitt, hann Pétur, þá gerir hún það – ótrúlega dugleg. Það sem er erfiðast við Dimmu er hvað henni finnst erfitt að vera í löngum bílferðum. Þá á hún það til að ofanda því hún er svo stressuð en það skrítna er að hún er samt alltaf sjúk í að fara í bílinn.“
Hafa skapast einhverjar sérstakar jólahefðir í kringum gæludýrið? „Já það hafa skapast nokkrar jólahefðir í kringum Dimmu. Hún fær t.d. alltaf pakka undir jólatréð sem er alltaf harðfiskur í og kannski smá dót. Hún fer alltaf með okkur í kirkjugarðinn á aðfangadag, hún fær jólabaðið sitt og svo fær hún auðvitað jóladagatal sem við opnum saman í desember.“
Hvernig mynduð þið lýsa aðfangadegi hjá gæludýrinu? „Ég myndi lýsa aðfangadeginum hjá Dimmu svona: hún vaknar og við opnum saman jóladagatalið. Um tólfleytið förum við í kirkjugarðinn og heimsækjum ömmu og afa. Eftir það er farið heim og hún fær jólabaðið sitt og svo fer allt á fullt við undirbúning fyrir aðfangadagskvöldið þar sem hún fær jólapakkann sinn. Dimmu finnst jólatíminn mjög skemmtilegur enda mikið að gerast og fjölskyldumeðlimunum finnst bara krúttlegt að það hafa myndast jólahefðir í kringum Dimmu, hún er jú ein af fjölskyldunni.“
Feykir þakkar Elísu og Dimmu kærlega fyrir að fá að skyggnast aðeins inn í líf þeirra og jólahefðirnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.