Eyþór Stefánsson – tónskáldið í Fögruhlíð
Eitt hundrað og tuttugu ár eru nú frá fæðingu Eyþórs Stefánssonar – tónskáldsins í Fögruhlíð. Eyþór Stefánsson fæddist á Sauðárkróki 23. janúar 1901 og lést á Sjúkrahúsi Sauðárkróks 3. nóvember 1999, 98 ára að aldri. Eiginkona hans var Sigríður Anna Stefánsdóttir sem fæddist 29. september 1905 og lést 20. júní 1992.
Um Sigríði eiginkonu sína sagði Eyþór á áttræðisafmæli sínu að honum hefði hlotnast það happ að hafa eiginkonu við hlið sér öll þau ár sem mest á reið: „Konan mín stóð mér aldrei að baki,“ sagði hann, „hún stóð ætíð við hlið mér í öllum mínum störfum og studdi mig með ráðum og dáðum alla tíð.“ Faðir Eyþórs hét Stefán Sigurðsson og móðir hans hét Guðrún Jónasdóttir, þau voru systkinabörn, af svokallaðri Borgarætt. Eyþór var í barnaskóla og unglingaskóla á Krókum og lærði að synda í sundpollinum í Sauðárgili.
Sökum fátæktar og annarra aðstæðna átti Eyþór engan kost á að afla sér frekari menntunar, fyrr en veturinn 1928, að hann nam tónlist og leiklist í Reykjavík. Árið 1934 lá leið Eyþórs til Þýskalands til að læra tónlist, leiklist og „myndlist“.
Eyþór Stefánsson hóf að semja tónlist rúmlega tvítugur. Hann hefur samið um 70 sönglög og aðra tónlist af ýmsu tagi. Hjá Ríkisútvarpinu eru skráðar yfir 200 upptökur að lögum hans.
Eyþór var frímúrari og einn af stofnendum Frímúrara-fræðslustúkunnar Mælifells á Sauðárkróki. Hann starfaði innan vébanda St. Jóh. St. Rúnar á Akureyri og samdi stúkulag Rúnar.
Árið 1941 tókst Eyþóri og félögum að stofna nýtt leikfélag á Króknum, sem þó má segja að sé endurvakning Leikfélags Sauðárkróks, sem var stofnað 13. apríl 1888.
Eyþór var afburða upplesari og hafði hljómfagra rödd. Hann lék og leikstýrði fjölda verka til ársins 1976 er hann steig síðast á svið en þá hafði hann leikið 118 hlutverk fyrir Leikfélag Sauðárkróks.
Eyþór var á langri ævi einn helsti menningarfrömuður Sauðkrækinga og Skagfirðinga allra og var sýndur margháttaður sómi um ævina. Hann var heiðursborgari Sauðárkróks og var heiðursfélagi í mörgum félögum á Sauðárkróki og í Tónskáldafélaginu. Hann var sæmdur gullmerki frá Félagi íslenskra leikara og stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín að menningarmálum á Sauðárkróki.
Steinn Kárason
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.