Eyrún Ingibjörg er traustsins verð
Nú líður senn að því að kosið verði til Alþingis. Í eðli sínu eru alþingiskosningar ekki frábrugðnar öðrum kosningum t.d. í félagasamtökum. Í kosningum er verið að velja fólk til að vinna málefnum viðkomandi félags eða samtaka brautargengi og koma sjónarmiðum þeirra á framfæri þar sem það á við. Alþingismenn eru starfsmenn þjóðarinnar og eiga að bera hag hennar fyrir brjósti. Halda á lofti gildum þess samfélags sem við viljum búa í. Þá reynir á samskiptahæfileika, festu og þor.
Það þarf kjark og áræði til þess að gefa kost á sér til starfa fyrir íslensku þjóðina og aldrei sem nú, þegar svo mörg krefjandi verkefni bíða úrlausnar. Þjóðin er kröfuharður húsbóndi og gagnrýnin, og ekki eys hún þakklæti yfir þá sem vel vinna, í besta falli ríkir þögnin.
Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir sveitarstjóri og viðskiptafræðingur á Tálknafirði býður fram krafta sína til vinnu fyrir íslensku þjóðina undir merkjum Sjálfstæðisflokksins, þar sem hún sækist eftir forystusæti.
Ég átti því láni að fagna að vera sveitungi Eyrúnar í fjölda ára og jafnframt vinna með henni að félagsmálum okkar sveitar. Eyrún er góður samstarfsmaður, jákvæð og áhugasöm um framgang allra góðra mála. Hún ræðir málin á jafnréttisgrundvelli og virðir öll sjónarmið. Það kemur ekki niður á samstarfinu þótt ekki náist samstaða, því þrátt fyrir mikið keppnisskap, hefur Eyrún félagslegan þroska til þess að láta slíkt ekki hafa áhrif.
Eyrún hefur með verkum sínum sýnt að henni er hægt að treysta til þess að vinna vel að málefnum samfélagsins, okkur öllum til heilla. Hún nálgast viðfangsefni sín með opnum huga, kynnir sér þau vel og tekur málefnalega afstöðu til þeirra. Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir á fullt erindi í forystusveit Sjálfstæðismanna á næsta kjörtímabili. Það yrði til heilla ef hún kæmist til áhrifastarfa í þágu íslensku þjóðarinnar.
Finnur Pétursson bóndi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.