Eydís Aðalbjörnsdóttir á Akranesi býður sig fram í 2. sæti fyrir Sjálfstæðisflokkinn í NV kjördæmi.

Ég hef ákveðið að leggja hönd á plóg í því nauðsynlega endurreisnarstarfi sem Sjálfstæðisflokkurinn þarf að hafa forystu um.  Flokkurinn þarf að viðurkenna mistök sín en jafnframt sýna styrk sinn í því hvernig leiða má þjóðina út úr núverandi efnahagsþrengingum. 

Í þann farveg þarf að leiða orkuna en ekki í  fánýtt karp.
Nú er lag fyrir öðruvísi stjórnmál þar sem miklu skiptir að allir virkist til góðra verka.  Heilindi, samkennd, kjarkur og dugnaður er það sem þjóðin þarf á að halda.  Ég treysti Sjálfstæðisflokknum best til að vinna eftir þeim dyggðum.
Ég hef starfað í bæjarmálum á Akranesi  síðastliðin 7 ár, er varaforseti bæjarstjórnar og formaður fjölskylduráðs.
Ég sit einnig í stjórn sambands sveitarfélaga á Vesturlandi og í framkvæmdaráði Vaxtarsamnings Vesturlands.  Einnig er ég í auðlinda og umhverfisnefnd Sjálfstæðisflokksins.
Ég ólst upp á Suðureyri við Súgandafjörð, var í Menntaskólanum á Ísafirði, tók BS gráðu í landafræði og kennsluréttindi  í Háskóla Íslands og lauk MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík þar sem ég sat í gæðaráði.  Ég hef búið á Akranesi síðastliðin 9 ár með manni mínum Þorkeli Loga Steinssyni hagfræðingi og börnunum okkar fjórum.
Ég hef mjög víðtæka reynslu úr atvinnulífinu.  Hef m.a. unnið sem fiskverkakona, bréfberi, aðstoðarmaður fatlaðra, grunn- og framhaldsskólakennari, verkefnastjóri í kortagerð og verkefnastjóri fyrir samtök ferðaþjónustunnar.  Það var síðan síðastliðið sumar sem ég tók þá ákvörðun að segja upp starfi mínu til að setja alla mína krafta í stjórnmál og gerðist aðstoðarmaður Herdísar Þórðardóttur alþingismanns.  Nú sem aldrei fyrr skil ég og vil, að stjórnmálamenn tali máli þjóðarinnar og heimilanna í landinu, en ekki eingöngu ákveðinna þrýstihópa.  Tali máli atvinnulífsins og uppbyggingar því án þess verður engum heimilum bjargað.  Tali máli siðgæðis, ekki klækja.  Í þá vinnu vil ég leggja heilshugar fram krafta mína.
15. febrúar 2008  Eydís Aðalbjörnsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir