Er þessi hausverkur endalaus?

-Það er kominn fimmtudagsmorgun hér í Delhí, í gær  lá ég í rúminu og kvaldist úr höfuðverk og ógleði. Akkúratt blandan sem gerir mig að algjörum aumingja, segir Þuríður Harpa á bloggi sínu og vonast til að dagurinn í dag verði betri en í gær.

Ég hafði það þó af að fara í sturtu með harmkvælum og í þrjóskukasti að fara niður í endurhæfingu eftir hádegið, í rauninni var það bara til þess að Shivanni hreyfði aðeins á mér fæturna, allavega gat ég ekkert gert sjálf. Ógleðin og hausverkurinn magnaðist bara við þetta og ég hringdi á hjúkkurnar að biðja um verkjalyf. Ég fékk bara pillur, eina við ógleðinni og aðra við höfuðverkinum. Síðan lá ég bara og bað þess að þetta virkaði nú. Um sexleytið komu hjúkkurnar til að tékka á hitanum og mæla blóðþrýsting, ég var enn að drepast, þær hringdu á lækninn og fengu leyfi til að gefa mér verkjasprautur en það virðist vera það eina sem dugar á mig.

Eftir sprauturnar leið hálftími og þá gat ég loksins sofið. Klukkan var að verða tíu þegar ég rankaði við mér aftur alveg galhress, guð hvað það var gott að vakna og finna hvergi til. Dr Ashis og tveir aðrir læknar komu að vísu og röskuðu ró minni um áttaleitið, vildu sjá með eigin augum hversu aum ég var, enda aldrei séð mig svoleiðis áður. Ég spurði þá hvað ég mætti búast lengi við þessu ástandi og þeir svöruðu að það væri einstaklingsbundið en þrír dagar væru hámark og töldu að ég yrði orðin góð í dag. Huhhh, vonbrigði mín voru talsverð þegar ég vaknaði með hausverk í morgun, nú bíð ég eftir að ógleðin bætist við.

Mér finnst ég algjörlega vera að eyða tíma mínum til  einskis, þegar ég kemst ekki af neinu viti í endurhæfinguna og svo á ég að mæta aftur í næstu viku á hinn spítalann, ég er eiginlega farin að kvíða fyrir því þar sem ég get allt eins átt von á því að verða aftur svona veik. Ég vona að ég geti skrifað eitthvað jákvætt á morgun, vona að ég komist úr rúminu.

Sjá nánar á oskasteinn.com

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir