Enn tekist á um leikskólabyggingu - bókunarveisla í Byggðaráði
Meirihluti Byggðaráðs Skagafjarðar lagði á fundi sínum í gær fram til samþykktar drög að samkomulagi við Kaupfélag Skagfirðinga um efniskaup í síðari áfanga leikskólabyggingar við Árkíl, með fyrirvara um fjármögnun verksins. Bjarni Jónsson óskaði bóða að hann teldi ekki komið að þeim tímapunkti í verkinu að þörf væri á samkomulagi sem þessu.
Taldi meirihluti Byggðaráðs mikilvægt að sem víðtækast samstarf verði um byggingu hússins og fól sveitarstjóra að vinna að því og ræða við hlutaðeigandi aðila.
Sigríður Björnsdóttir óskar bókað að hún sitji hjá við afgreiðsluna. En Bjarni Jónsson lagði fram eftirfarandi bókun. "Ekki er komið að þeim tímapunkti að gera samkomulag sem þetta í ljósi þess að verkið hefur ekki enn verið fjármagnað og gengið úr skugga um fjárhagslega getu sveitarfélagsins til að standa undir framkvæmdinni. Það er jákvætt að beina viðskiptum eins mikið og kostur er í heimabyggð. Hins vegar er vandasamt að tryggja að ávallt verði hagkvæmustu kaup í boði. Ekki er ljóst að samkomulag þetta taki fyllilega á því."
Meirihlutinn bókaði á móti: "Samkomulaginu og ályktun byggðaráðs um mikilvægi þess að samstarf verði um bygginguna er ætlað að undirstrika vilja til að verja atvinnulíf í Skagafirði og gert með fyrirvara um fjármögnun verkefninsins. Það er því ekkert athugavert við málsmeðferðina enda vel þekkt að samþykktir sem þessar séu gerðar hjá ríki og öðrum opinberum aðilum."
Lagði Bjarni þá fram eftirfarandi tillögu. "Í Sveitarstjórnarlögum 65. gr. segir eftirfarandi “Hyggist sveitarstjórn ráðast í fjárfestingu og áætlaður heildarkostnaður eða hlutur sveitarfélagsins í henni nemur hærri fjárhæð en fjórðungi skatttekna yfirstandandi reikningsárs er skylt að leggja fyrir sveitarstjórn umsögn sérfróðs aðila um kostnaðaráætlunina, væntanleg áhrif hennar á fjárhagsafkomu sveitarsjóðs á fyrirhuguðum verktíma og áætlun um árlegan rekstrarkostnað fyrir sveitarsjóð, sé um hann að ræða. Jafnframt skal gerð grein fyrir því hvernig framkvæmdin samræmist þriggja ára áætlun sveitarfélagsins.”
Þann 5. febrúar þegar þetta er ritað hefur ekki enn verið lögð fram eða óskað eftir slíkri umsögn fyrir sveitarfélagið vegna leikskólabyggingar við Árkíl. Lagt er til að það verði gert hið fyrsta svo slík greinargerð geti legið fyrir áður en ráðist verður í frekari skuldbindingar vegna verksins og til þess að vöntun á slíkri úttekt verði ekki til að tefja verkið að öðrum skilyrðum uppfylltum.
Bjarni Jónsson, VG"
Tillaga Bjarna er felld með tveimur atkvæðum gegn einu atkvæði fulltrúa Sjálfstæðisflokks en Bjarni á ekki atvkæðisrétt í Byggðaráði.
Aftur bókaði meirihlutinn á móti Bjarna; "Tillaga fulltrúa Vinstri grænna er ótímabær. Ljóst er að lánakjör þau sem sveitarfélagið væntanlega fær mun hafa afgerandi áhrif á heildarkostnað verksins og um leið á umsögn þá sem kveðið er á um í 65.gr. sveitarstjórnarlaga. Þau lánakjör liggja ekki fyrir og því mjög hæpið að leggja slíka umsögn fyrir á þessum tímapunkti. Fyrir liggur ákvörðun meirihlutans um að kalla eftir umsögn þegar fjármögnun, lánakjör og heildarkostnaður liggur fyrir. Þá er rétt að taka fram að slík umsögn er kostnaðarsöm og því ekki rétt að leggja í slíkan kostnað fyrr en fyrir liggur hvernig fjármögnun verður háttað. Meirihluti byggðaráðs telur því ekki tímabært að gera slíka úttekt."
Aftur bókaði Bjarni: "Úttekt sem þessi þolir ekki frekari bið og er forsenda fyrir frekari undirbúningi framkvæmda. Þessi meðferð tillögunnar kemur því á óvart og getur jafnvel tafið fyrir verkinu. Að fenginni úttekt er hægt að meta og taka ákvarðanir um næstu skref. Meirihlutinn hefur ákveðið að láta vaða á súðum í þessu máli líkt og ýmsum öðrum."
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.