Enn er spenna í 4. deildinni

Einn leikur fór fram í 4. deild karla í knattspyrnu í gær. Ekki voru það Stólarnir sem sýndu takta en leikurinn skipti miklu í baráttunni um sæti í 3. deild að ári. Ýmir í Kópavogi tók þá á móti liði Árborgar.

Ef Árborg, sem hafði unnið sex leiki í röð í deildinni, hefði tekist að vinna leikinn hefði það tryggt liði Tindastóls sæti í 3. deild að ári. Árborgarar náðu forystunni í fyrri hálfleik en heimamenn jöfnuðu í síðari hálfleik og eiga því bæði lið enn tæknilega möguleika á að ná liði Tindastóls nú þegar öll liðin eiga eftir að spila tvo leiki.

Staða Stólanna er geysisterk á toppnum en liðið er með 37 stig, aðeins tapað einum leik í sumar og eru með 30 mörk í plús. Árborg er með 32 stig og 18 mörk í plús og Ýmir með 31 stig og sömuleiðis 18 mörk í plús. Það þarf því eitthvað fáránlegt að gerast í boltaheimum ef þetta á að klikka hjá Stólunum.

Næsti leikur Tindastóls er hér heima nk. laugardag en þá mætir einmitt lið Árborgar í heimsókn. Annað stigið dugar heimamönnum til að næla í farmiðann upp um deild en liðið er gott og hefur spilað frábærlega í sumar, hefur nú unnið tíu leiki í röð, og það verður því pottþétt spilað til sigurs.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir