Hátíðin sem gleður húnvetnsk hjörtu
Húnavaka, bæjarhátíð og fjölskylduskemmtun Austur-Húnvetninga, verður haldin dagana 14.–17. júlí nk. „Hátíðin hefur skipað sér fastan sess hjá heimamönnum sem og brottfluttum Blönduósingum. Segja má að hátíðin sé nokkurs konar „reunion“ fyrir brottflutta Blönduósinga sem hafa sótt hana vel undanfarin ár sem og heimamenn og aðrir gestir, enda allir velkomnir á Blönduós,“ sagði Kristín Ingibjörg Lárusdóttir, annar umsjónaraðili hátíðarinnar, í samtali við Feyki. Þetta er fjórða árið sem þau systkinin, Kristín og Eysteinn Pétur, annast framkvæmd hátíðarinnar.
„Húnvetningar hafa áratugum saman haldið Húnavöku en hún var hér á árum áður haldin á útmánuðum og því tengd árstíðaskiptunum. Húnavakan, sem þá stóð yfir í viku, ávann sér fastan sess í hugum Húnvetninga og annarra sem mjög vel heppnuð hátíð og margir gestir úr nærliggjandi héruðum komu til að njóta hennar með heimamönnum. Dansleikir voru mörg kvöld vikunnar, ásamt leiksýningum og allskonar uppákomum. Sjónleikir, kvikmyndasýningar, skemmtiþættir, hagyrðingakvöld, myndlistasýningar, mælskukeppni, spurningaþættir og fleira gladdi húnvetnsk hjörtu hér á árum áður. Mikill metnaður var lagður í viðburðina og hafði undirbúningur fyrir suma viðburði staðið yfir allan veturinn. Segja má að Húnavakan hafi verið menningaruppskeruhátíð heimamanna þar sem veturinn var kvaddur og sumrinu fagnað,“ segir Ingibjörg um árdaga Húnavökuhátíðarinnar. Viðtalið í heild sinni er að finna í Feyki sem kom út í dag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.