Fornverkaskólinn kennir torfhleðslu

Fjósið á Minni-Ökrum.MYND FORNVERKASKÓLINN
Fjósið á Minni-Ökrum.MYND FORNVERKASKÓLINN
Fornverkaskólinn hefur frá 2007 boðið upp á námskeið í gömlu byggingahandverki og hefur áherslan verið á torfhleðslu, grindarsmíði/timburviðgerðir og grjóthleðslu. Fornverkaskólinn er samstarfsverkefni Byggðasafns Skagfirðinga, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Háskólans á Hólum.
 
Á Facebooksíðu Fronverkaskólans segir frá því að  dagana 28.-30. ágúst var haldið fyrra torfhleðslunámskeið sumarsins. Verkefni námskeiðsins var að laga vegg milli gangs, baðstofu og framhúss á Tyrfingsstöðum, og vegna þrengsla var námskeiðið fámennt en góðmennt, enda viljum við að allir fái tækifæri til að komast að verkinu. Viðgerðin gekk ljómandi vel og tók styttri tíma en reiknað var með, svo þátttakendur fengu "bónusverkefni" og hlóðu frístandandi vegg þar sem þeir spreyttu sig á öðrum hleðslugerðum. Úr varð fyrirmyndar veggur með hringlaga gati fyrir miðju.
 
Síðara torfhleðslunámskeið sumarsins var síðan dagana 31. ágúst-2. september. Það námskeið var haldið á Minni-Ökrum, og er það í fyrsta skipti sem Fornverkaskólinn heldur námskeið þar. Verkefni námskeiðsins var að hefja lagfæringar á torffjósi þar á bæ, sem telst vera það torffjós sem lengst var notað á Íslandi, en húsið var í notkun til lok árs 1989.
Hluti verkefnisins var að rífa torfvegginn sem fyrir var, enda er gott fyrir þátttakendur að kynnast upphafsskrefum í viðgerðum gamalla bygginga. Þátttakendur kynntust að vanda stungu og ristu og mismunandi hleðslugerðum og hófust handa við að hlaða vegginn á ný frá grunni. Heldur hvasst var á námskeiðinu fyrstu tvo dagana og svo blotnaði vel í þegar leið á lokadaginn, en við létum það ekki á okkur fá.
 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir