Gleðitíðindi frá gervigrasvellinum
Þau gleðilegu tíðindi voru að berast að núna um helgina 15. og 16. júní, verða loksins spilaðir heimaleikir hjá mfl. Tindastóls í knattspyrnu. Allir flokkar Tindastóls hafa þurft að breyta sínum plönum undanfarnar vikur eftir mikið tjón sem varð á gervigrasvellinum á Sauðárkróki þann 20.apríl sl. og alveg óhætt að segja að beðið hafi verið með mikilli eftirvæntingu og óþreygju eftir því að geta byrjað að spila á vellinum á ný.
Nú hinsvegar horfir til betri tíðar því „í morgun þann 13. júní mættu á völlinn vaskir menn frá Metatron sem eru komnir til þess að leggja lokahönd á að leggja niður um það bil, 500 fm af nýju gervigrasi á vestari vítateig og því mun frá og með næstkomandi laugardegi heimaleikir geta fara fram á okkar velli, “ segir Adam Smári formaður knattspyrnudeildar Tindastóls, sem var sannarlega glaður að geta flutt þau tíðindi af vellinum.
Karlarnir byrja sinn fyrsta heimaleik laugardaginn 15. júní þegar þeir taka á móti RB og hefst sá leikur kl.16 og síðan daginn eftir - sunnudaginn 16. júní spila stelpurnar í Bestu deildinni við Víking R. Bæði lið þurfa á stuðningi að halda og því ekki úr vegi að fjölmenna á völlinn báða dagana. Exton býður frítt á leikina því ekkert til fyrirstöðu að fjölmenna þegar loksins er hægt að spila á heimavellinum eftir ansi hreint krefjandi tíma.
Sjoppan verður að sjálfsögðu á sínum stað.
Áfram Tindastóll.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.