Endaði í 10. sæti af rúmlega 250 keppendum

Þuríður Elín að koma í mark eftir 100 mílur eða 160,9 km. MYNDIR AÐSENDAR
Þuríður Elín að koma í mark eftir 100 mílur eða 160,9 km. MYNDIR AÐSENDAR

Um sl. helgi fór fram Bakgarðshlaupið í Heiðmörk í fínasta veðri og hófst á slaginu níu á laugardagsmorgninum. Af þeim rúmlega 250 sem tóku þátt var dugnaðarforkurinn, hlaupadrottningin og Króksarinn Þuríður Elín Þórarinsdóttir á meðal keppenda en hún gerði sér lítið fyrir og endaði í 10. sæti. Þá er gaman að nefna að af öllu því kvenfólki sem tók þátt var hún í 4. sæti, magnaður árangur hjá henni. Þetta er í annað sinn sem Þuríður Elín tekur þátt í Bakgarðshlaupinu í Heiðmörk en hún hefur einnig tekið þátt í Bakgarðshlaupinu í Öskjuhlíð.

Fyrsta Bakgarðshlaupið sem Þuríður tók þátt í hljóp hún 53,6 km. Í annað skiptið hljóp hún 100,5 km en núna hljóp hún 100 mílur eða 160,9 km sem eru 24 hringir. Það gefur okkur að hún hafi bætt sig um 60,4 km á einu ári sem er ótrúlegur árangur miðað við hversu stutt er síðan hún byrjaði að hlaupa.

Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er hlaupinn rúmlega 6,7 km hringur á hverjum klukkutíma og er sá sem hleypur flesta hringi og endar einn sá eini sem klárar hlaupið. Í ár sigraði Marlena Radziszewska en hún hljóp 38 hringi eða 254,6 km. Hver hringur byrjar alltaf á heila tímanum og ef hlauparar ná ekki að vera komnir í ráshólfið á heila tímanum þegar næsti hringur er ræstur út detta þeir úr keppni. Eftir hvern hring má nota tímann sem er eftir af klukkutímanum til að hvílast og undirbúa sig fyrir næsta hring. Það er því ekki sjálfsagt mál að ná svona góðum árangri og þarf að vera vel undirbúinn með gott fólk með sér til að aðstoða.

Hvernig gekk í Öskjuhlíðinni í vor? Það gekk bara nokkuð vel í Öskjuhlíðinni í maí, mér leið vel og orkan var góð en ég fór að fá verki í hægra hné (IT bandið) á hring 2 sem ágerðist bara og varð til þess að á 17 hring voru fæturnir bara búnir og ég var farin að draga hægri fótinn og þurfti að hafa vel fyrir því að klára þann hring. Eftir þá keppni tók ég góða hvíld og leyfði IT bandinu að jafna sig, var duglegri við að taka styrk og endurheimt. Fór svo bara rólega af stað aftur og ég var bara góð í hnénu í sumar. Skellti mér aftur í Laugaveginn í skrautlegum veðuraðstæðum en líkaminn var bara góður og ég náði að halda áfram að æfa á fullu fram að Bakgarði.

Hvaða markmið settir þú fyrir þetta hlaup? Markmiðið mitt í sumar var að æfa fyrir Bakgarðinn og var stefnan sett á að hlaupa 100 mílur. Ég skráði mig í hlaupafjarþjálfun hjá Rúnu Rut (Runa Runner) og hún aðstoðaði mig í sumar og í undirbúningnum fyrir keppnina. Til að ná að hlaupa þetta lengi þarf að æfa mikið og taka langar æfingar. Einnig hef ég verið að bera á mig Kulda kremið frá RÓ CBD og það hefur hjálpað mjög mikið í endurheimtinni og á stóran þátt í því að ég hef verið verkjalaus í hnjánum í sumar.

Hvernig leið þér í hlaupinu um helgina? Hlaupið um helgina gekk mjög vel, mér leið bara nokkuð vel og ég var verkjalaus í hnjánum alveg fyrstu 100 km en svo fór ég að finna smá til í vinstra hnénu sem ég hef ekki fundið fyrir áður en það var ekki eins slæmt og í vor, þannig að ég var bjartsýn á að það væri ekki að fara stoppa mig í þetta skiptið! Ég náði að næra mig vel milli hringja og var það aðallega flatbrauð, kartöflustappa og bananar en svo var ég með kolvetnadrykk með mér í brautinni. Það munar öllu að ná að næra sig þegar hlaupið er svona lengi og þótt lystin hafi ekki verið mikil þá fékk ég mér alltaf eitthvað. Það var svo á hring 22 sem þetta fór að verða mjög erfitt, ég var orðin þreytt og hnéið farið að trufla mig og því hægðist mikið á mér en það voru bara tveir hringir eftir!

Á hvaða tímapunkti langaði þig að hætta að hlaupa? Eins og ég sagði áðan þá ætlaði ég að ná markmiðinu mínu og klára 24 hringi. Þegar ég fór af stað í 23 var ég orðin mjög stíf og hnéið var bara að gefa sig en ég staulaðist af stað og þegar ég var búin að haltra 2 km var ég ekki bjartsýn á að ná þessu. Ég hringdi grátandi í Rúnar, manninn minn, og bara sagðist ekki geta hlaupið en að mig langaði ekki að gefast upp og ég ætlaði að reyna allt til að klára hringinn þótt ég næði engri hvíld. Ég gekk fyrstu 3 km í brautinni en var þá orðin aðeins betri og ekki alveg eins stíf þannig ég fór að ná að hlaupa aðeins á milli þess sem ég gekk og náði að hlaupa seinasta km þannig ég náði hringnum. Þegar ég kom í mark voru aðeins tæpar þrjár mínútur áður en næsti hringur átti að fara af stað þannig ég ákvað að setjast ekkert niður svo ég myndi ekki stífna aftur upp og kom mér því af stað í hring 24. Þessi lokahringur var erfiður en ég ætlaði mér að klára og ná 100 mílunum.

Hvernig leið þér þegar þú komst í mark eftir 24. hringinn? Það var svo góð tilfinning að koma í mark og þetta var mjög mikill sigur fyrir mig að klára þessa 100 mílur sem ég var búin að vera að æfa fyrir í allt sumar. Ég fór af stað í hring 25 en ég snéri svo bara við. Ég var búin að ná markmiðinu mínu og tveir seinustu hringirnir voru mjög erfiðir og hægir þannig að ég vissi að ég myndi ekki ná að klára einn hring í viðbót.

„Mig langar til að þakka öllum þeim sem aðstoðuðu mig á einn eða annan hátt, bæði fyrir og á meðan á hlaupinu stóð, kærlega fyrir. Hefði ekki getað þetta án ykkar,“ segir Þuríður að lokum.

Feykir þakkar Þuríði kærlega fyrir spjallið og óskar henni til hamingju með frábæran árangur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir