Emese Vida aftur á Krókinn

Körfuknattleiksdeild Tindastóls hefur samið við Emese Vida um að leika áfram með kvennaliði Tindastóls. Hún stóð sig með ágætum síðasta vetur en þá skilaði hún 15,6 stigum að meðaltali og 15,9 fráköstum. Það má fastlega reikna með því að hún sé enn 190 sm á hæð en nú í september kemst hún á fertugsaldurinn.

Í tilkynningu frá deildinni kemur fram að Helgi Freyr, þjálfari Stólastúlkna, sé mjög ánægður með komu Emese: „Hún er reynslumikil og með mikil gæði sem leikmaður. Það er mikill kostur að hún þekkir deildina og er hluti af þeim kjarna sem heldur áfram frá því í fyrra.“

Áður en Emese gekk til liðs við Tindastól í fyrra hafði hún spilað á Ítaliu með Milanó og tvö tímabil þar á undan var hún hjá Snæfelli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir