Emanuel og Alejandro hækka hitastigið í Húnavatnssýslum
Einhverjar mannabreytingar eru í gangi hjá liði Kormáks/Hvatar þessa dagana. Spánski miðjumaðurinn Jorge Garcia Dominguez ákvað á dögunum að halda heim á leið og því hefur stjórn Kormáks Hvatar haft hraðar hendur með að fá inn nýjan mann í hans stað. Sá heitir Emanuel Nikpalj og hefur áður leikið hér á landi, síðast með Þór frá Akureyri árið 2020 í Lengjudeildinni, segir í frétt á Aðdáendasíðunni góðu.
Hann hóf keppni með KF frá Tröllaskaga það ár en var sjanghæjaður yfir í Eyjafjörðinn á miðju tímabili eftir góða frammistöðu á Ólafsfirði.
Emy kemur til Kormáks Hvatar frá rúmenska B-deildarliðinu ACS Viitorul Pandurii Târgu Jiu, en spilaði þar áður í B-deild Króatíu. Samkvæmt óstaðfestum heimildum og með dassi af giski þá er Emy gríðar kænn í að vinna boltann, sterkur og yfirvegaður ásamt því að vera agressívur og hugaður í leik.
Þá má geta þess að Húnvetningar bættu markmanni í safn sitt á dögunum en þá gekk til liðs við þá Spánverjinn Alejandro Maqueda en hann lék með liði Tindastóls síðasta sumar. „Hann þykir samkvæmt hinu óskeikula interneti vera íþróttamaður mikill, höndlar boltann vel og sýna mikinn leiðtogabrag á velli,“ sagði í tilkynningu á aðdáendasíðunni.
Það er því frekar ólíklegt að Sigurður Bjarni fyrirliði fái tækifæri til þess að verja mark Kormáks/Hvatar á þessu tímabili þrátt fyrir góða takta í fyrra í fjarveru Djuric.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.