Elskar að fara í rjúpu

Margrét og Baron á hundasýningu
Margrét og Baron á hundasýningu

Þýskur fjárhundur eða german shepherd, eins og flestir þekkja þá undir, eru mjög fallegir, sterkbyggðir og tignarlegir hundar. Þeir eru oftast svartir/brúnir á litinn en grár/brúnn er einnig þekkt. Þar sem þeir eru þekktir fyrir að vera mjög ákveðnir, óhræddir, áhugasamir, kjarkaðir, athuglir og hlýðnir þá eru þeir oftast notaðir sem vinnuhundar því þeir eru einnig einstaklega fljótir að læra. Þeir eru mjög húsbóndahollir og elska ekkert meira en að vera með fjölskyldunni sinni þó það sé ekki annað en að fara í smá bíltúr að kaupa sér ís, þeir vilja bara vera með.

Margrét Eyjólfsdóttir, dóttir Maríu Reykdal og Eyjólfs Pálssonar á Starrastöðum, á einn svona fallegan hund sem heitir Ice Tindra Merlin en þau kalla hann Baron. Margrét býr með Guðmundi Páli Ingólfssyni á Lækjagerði, rétt innan við Varmahlíð, ásamt börnum þeirra tveimur, Ernu Maríu 9 ára og Eyjólfi Erni 6 ára. 

Hvernig eignaðist þú Baron? Við Gummi höfum átt hunda frá því við byrjuðum að vera saman. Okkar fyrsti hundur var líka þýskur fjárhundur sem við áttum í níu ár, og höfum við alltaf verið hrifin af þeirri tegund. Á eftir honum fengum við okkur Golden retreiver, en eftir hann ákváðum við að við yrðum að fá okkur annan þýskan fjárhund þar sem okkur finnst engir hundar jafnast á við þá og við bæði búin að kynnast nokkrum hundunum í gegnum ævina. Sumarið 2016 fór ég að forvitnast eftir hvolpum hjá nokkrum ræktendum sem eru að rækta þýska fjárhunda og komst þá í samband við ræktanda sem var með hvolpa á þeirri stundu og fékk einn vel valinn úr því goti. Þessi ræktun heitir Ice Tindra ræktun og er í Garði á Suðurnesjunum, þetta er frábær ræktun og þau eru yndislegir ræktendur sem hugsa vel um fólkið sem kaupir af þeim hunda og er löng saga að segja frá því. Hann er því úr Garðinum og ég fékk hann í september sama ár. Baron verður því fimm ára í sumar.

Hvað er skemmtilegast við Baron? Það er svo margt skemmtilegt við Baron. Hann er mikill karakter, mér finnst stundum eins og hann lesi hugsanir mínar. Hann er til dæmis löngu búinn að finna það á sér þegar ég er að hugsa um að fara út að gera eitthvað, þá er hann alltaf tilbúinn að koma með og orðinn spenntur. Baron er mjög ljúfur, rólegur, tryggur og yfirvegaður hundur og einnig mjög barngóður, hvort sem það eru krakkarnir okkar eða aðrir krakkar.         

Krakkarnir okkar voru fimm og tveggja ára þegar við fengum hann. Baron er ótrúlega umburðalyndur gagnvart þeim og sérstaklega þegar þau voru yngri og meiri óvitar. Hann gerir til dæmis mikinn greinarmun á því þegar krakkarnir eru að leika við hann eða hvort við Gummi erum að leika við hann og passar sig mun betur í kringum krakkana. Baron veit alveg hvað hann á að gera ,,að honum finnst'' til að fá okkur til að koma að leika við sig, þá setur hann sig í alls konar stellingar og gefur frá sér skemmtileg hljóð og passar upp á að við tökum alveg örugglega eftir sér. Baron er mjög tryggur hundur, hann vill passa upp á okkur og er alltaf hjá okkur þegar við erum úti. Hann er eins og skugginn okkar, og fylgir okkur hvert sem við förum. Sem dæmi þá erum við með hesta og eru nokkrir á húsi hjá okkur núna og þegar við erum að moka stíurnar þá er hann alltaf upp við mig eða Gumma, og fylgir okkur á milli þeirra eins og varðhundur, hann þarf alltaf að vera í sömu stíu og við, þegar við erum bæði í hesthúsinu þá getur þetta verið snúið fyrir hann því hann getur ekki verið á tveimur stöðum í einu.

Baron er sveitahundur þar sem hann er mikið til frjáls ferða sinna úti, hann fer aldrei frá húsinu ef hann veit af okkur inni, þá situr hann bara fyrir utan og bíður eftir að við komum út eða leggst niður og fer að sofa hér fyrir utan. Hérna sem við búum er mikið af kindum sem ganga lausar út um allt frá vori og fram á vetur, hann ólst hérna upp með þær úti og er nokkuð sama um þær og þeim um hann, sem er frábært. Ef hann þarf að vera einn heima eða getur ekki verið með okkur af einhverjum ástæðum þá er hann ekkert að fela gremju sína, hann fer hreinlega í fýlu.

Baron er einnig sýningarhundur, frá því að við fengum hann höfum við tekið þátt í öllum hundasýningum sem hafa verið haldnar hjá Hundaræktarfélagi Íslands fyrir utan smá stoppi út af Covid-19. Hann hefur unnið til margra verðlauna og hefur unnið nokkra titla, hann varð ungliðameistari og varð einnig íslenskur sýningarmeistari, aðeins nýorðinn tveggja ára gamall. Hann hefur líka tekið þátt í tegundasýningum og hefur unnið besti hundur tegundar og einnig verið annar besti hundur sýningar. Þetta finnst okkur og Baron mjög skemmtilegt að gera og honum finnst öll þjálfun mjög skemmtileg, hvort sem það tengist sýningum eða bara önnur þjálfun. Baron hefur verið notaður í ræktun og sóst hefur verið eftir því að nota hann á tíkur.

Hvað er erfiðast? Það sem mér finnst erfiðast við að eiga svona yndislegan hund er hvað þeir eru fljótir að eldast, við fáum svo stuttan tíma með þeim, en það sem skiptir mestu er að njóta tímans. Hann er okkar þriðji hundur og það er alltaf erfiðast að þurfa að kveðja þessa ferfætlinga þegar þeirra tími kemur.
Ég hef lent í fólki sem hefur ekki mikla þekkingu á þessari tegund og lítur á þessa hunda sem hættulega hunda sem mér finnst alltaf leiðinlegt að heyra eða
vita af. Það er svo af og frá að þeir séu eitthvað verri en aðrar tegundir, staðalímyndin er bara oft svo kolröng. Þeir hafa verið notaðir í alls konar verkefni í gegnum tíðina til dæmis af lögreglunni og sem herhundar vegna þess að þeir eru stórir og sterkir og mjög meðtækilegir fyrir alls konar þjálfun, sem fólk heldur oft fast í án þess að þekkja annað.

Ertu með einhverja sniðuga eða merkilega sögu af Baron? Við eigum margar sniðugar sögur um Baron en það væri efni í langa grein. Eitt af því sem okkur finnst merkilegt með Baron er að hann er mikill veiðihundur þrátt fyrir að vera þýskur fjárhundur. Gummi gengur alltaf til rjúpna á hverju ári og hefur alltaf tekið hundana okkar með. Eftir að við fengum Baron þá hefur hann farið með honum í rjúpu. Hann sýndi strax mikinn áhuga á rjúpunni og var fljótur að kveikja á perunni hvað Gummi væri yfir höfuð að gera í þessum fjallgöngum. Það tók hann ekki nema nokkrar ferðir þar til hann var farinn að sækja rjúpurnar fyrir Gumma upp í skriður og niður í gil. Núna er hann einnig farinn að þefa uppi rjúpurnar og sýnir Gumma hvort rjúpur eru nálægt með því að spennast upp, setur skottið upp í loft og þefar áhugasamur í áttina og gefur Gumma merki með því að líta til baka á hann. Þetta finnst Baron eitt af því skemmtilegra sem hann gerir og vælir og skælir af spenningi þegar Gummi fer að græja sig í fjallgöngu.

 

 

Feykir þakkar Margréti kærlega fyrir að svara spurningunum í Gæludýrið og ég...

Ef þú hefur áhuga á að svara spurningum um gæludýrið þitt.. Sendu okkur póst á e-mailið nyprent@nyprent.is 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir