Ellert og Kristján í Sauðárkrókskirkju
Í kvöld munu þeir frændur og brottfluttu Króksarar, Ellert Heiðar Jóhannsson og Kristján Gíslason, syngja fyrir gesti Sauðárkrókskirkju. Það er Sauðárkrókssöfnuður sem býður á þessa skírdagstónleika sem ætlaðir eru allri fjölskyldunni. Í hléi verður atburða skírdagskvölds minnst og gengið að borði Drottins, þar sem brauð úr Sauðárkróksbakaríi verður brotið og bergt á vínberjum. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Heitið Skírdagur
Á WikiPedia segir að lýsingarorðið skír merki hreinn, óblandaður; skær, bjartur; saklaus og vísar nafnið þannig til þess að Jesús þvoði fætur lærisveina sinna. Sögnin skíra merkir að hreinsa og hin upphaflega merking þess að barn sé skírt er þess vegna hreinsun. Skírdagur ásamt öskudeginum var öðrum fremur talinn dagur iðrunar og afturhvarfs.
Upphaflega hefur dagur þessi líklega verið nefndur á Íslandi skíri þórsdagur[1] eins og skærtorsdag á dönsku og Share-thursday á ensku. Þó finnst ekki nema eitt dæmi um það orð í íslenskum fornritum og er það frá 14. öld. Ástæðan er líklega vegna afnáms dagsheitana Týsdagur, Óðinsdagur og Þórsdagur á 12. öld, sem sagt er að Jón Ögmundsson biskup hafi fyrirskipað.
Skírdagur og föstudagurinn langi eru gjarnan nefndir einu nafni bænadagar og hefur sú nafngift verið algeng um land allt til skamms tíma. En þessir tveir dagar hafa einnig borið fleiri nöfn þó að þau hafi ekki tíðkast um allt land. Í Þingeyjarsýslum var orðið skírdagshelgar algengt heiti á þessum helgidögum og aðalheiti þeirra í máli fólks fyrr á tíð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.