Elísa Bríet valin efnilegust í Bestu deildinni af Fótbolti.net

Elísa Briet. MYND: SIGURÐUR INGI
Elísa Briet. MYND: SIGURÐUR INGI

Bestu deild kvenna í knattspyrnu lauk um helgina og það fór svo að eftir toppeinvígi Vals og Breiðabliks þá voru það Blikar sem fögnuðu Íslandsmeistaratitli eftir hreinan úrslitaleik gegn Val í síðustu umferð. Jafntefli dugði þeim grænu til sigurs og markalaust var það. Fótbolti.net tilkynnti í gær um val á liði ársins og þá valdi miðillinn efnilegasta leikmann deildarinnar og það hnoss féll í hlut leikmanns Tindastóls, Elísu Bríetar Björnsdóttur frá Skagaströnd. Til hamingju Elísa Bríet!

Í rökstuðningi með valinu segir: „Stelpa fædd árið 2008 sem kom inn í lið Tindastóls og var bara algjör lykilkona. Er með alveg gríðarlega hæfileika og það er vert að leggja nafn hennar á minnið. Skoraði sex mörk af miðsvæðinu og spilaði stórt hlutverk í því að Tindastóll náði að halda sér frekar þægilega uppi. Það er alveg klárlega hægt að færa rök fyrir því að þarna sé framtíðarlandsliðskona á ferðinni. Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir og Vigdís Lilja Kristjánsdóttir úr Breiðabiki og Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir úr Val gerðu einnig sterkt tilkall hérna.“Þess má geta að KSÍ valdi Hrafnhildi Ásu efnilegasta að móti loknu.

Besti leikmaður deildarinnar var Sandra María Jessen sem skoraði að vild með liði Þórs/KA og vel að nafnbótinni komin. Í liði Bestu deildarinnar voru auk Söndru Maríu einungis leikmenn úr liðum Breiðabliks (7) og Vals (3). Níu leikmenn komust á bekkinn hjá liði ársins og þar átti Tindastóll tvo fulltrúa; Elísu Bríeti og Jordyn Rhodes sem gerði 13 mörk fyrir Stólastúlkur í sumar, eitt í Mjólkurbikarnum og hin tólf í Bestu deildinni.

Sjá frétt á Fótbolti.net >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir