Ekkert er sjálfgefið á sérleiðum
Ljómarallýið fór fram um síðustu helgi og voru 20 áhafnir ræstar út frá Vélavali í Varmahlíð á laugardagsmorgninum en rallýkeppnin var önnur í röðinni af fimm í Íslandsmeistaramótinu 2024. Veðurskilyrði voru ákjósanleg, hvorki sól, þoka, né úrkoma að trufla einbeitingu ökumanna eða starfsfólks. Aðstæður voru þó nokkuð krefjandi og vætutíð að undanförnu gerði yfirborð vegar á köflum mjög sleipt en töluverð afföll urðu í keppnisbílaflotanum vegna bilana, útafaksturs og veltutilþrifa. Sex áhafnir urðu að játa sig sigraðar og luku ekki keppni.
Í heildarkeppninni hafði ríkjandi Íslandsmeistari, Gunnar Karl Jóhannesson sannfærandi sigur ásamt Guðríði Lindu Karlsdóttur móður sinni sem var aðstoðarökumaður hans aðra keppnina í röð. Settu þau mæðginin hraðamet um Mælifellsdal. Þeir sem þar hafa farið um vita að 13 mínútur og 18 sekúndur um 23,5 km sérleið upp Mælifellsdal að Bugavatni, er firna góður tími. Óku þau á Ford Fiesta R5 bíl sem Gunnar Karl hefur verið að keppa á úti í Bretlandi síðustu misseri.
Í öðru sæti í Ljómarallý 2024 urðu systkinin Daníel og Ásta Sigurðarbörn sem eru flestum rallýáhugamönnum að góðu kunn eftir árangur síðustu ára. Þau óku MMC Lancer Evo, líkt og Jósef Heimir Guðbjörnsson og Gunnar Eyþórsson sem lönduðu þriðja sæti í keppninni, sjö sekúndum á undan Birgi Guðbjörnssyni og Valgarði Davíðssyni á Subaru Impreza.
Þrjár áhafnir voru skráðar til leiks í eindrifsflokki. Þar urðu hlutskarpastar þær Karítas Birgisdóttir og Helena Ósk Elvarsdóttir, en þær unnu einnig fyrstu keppni ársins í eindrifsflokki og leiða því Íslandsmeistaramótið. Árangur þeirra er sannarlega eftirtektarverður þar sem Karítas er 17 ára og nýkomin með bílpróf og Helena Ósk, aðstoðarökumaður er einungis 16 ára. Þær stöllur hafa reynslu úr rallýkrossi og koma því til keppni í rallinu með þá akstursreynslu í farteskinu.
Í C flokki (AB varahlutaflokki) mættu átta áhafnir til keppni. Þar var slegist fram á síðustu sekúndu, þar sem úrslit réðust á síðustu sérleið dagins. Systkinin Almar og Vigdís Þórólfsbörn báru sigur úr bítum með einnar sekúndu forskot á Daníel Jökul Valdimarsson og Hönnu Rún Ragnarsdóttur. Í þriðja sæti urðu Hilmar B. Þráinsson og dóttir hans Sara Hilmarsdóttir. Hilmar átti góða endurkomu í keppninni eftir áralangt hlé en státar af Íslandsmeistaratitli ökumanna 2011 og 2012.
Ánægjulegt er að geta þess að konur og karlar áttu jafnan hlut á verðlaunapalli í Ljómarallinu og rekur menn ekki minni til þess að svo jöfn hafi kynjahlutföllin áður verið.
Nánar má skoða úrslit og tíma á hverri sérleið á vefslóðinni www.rallytimes.is
Bílaklúbbur Skagafjarðar vill koma á framfæri þökkum til starfsfólks, stuðningsaðila, keppenda, gesta og annarra sem lögðu hönd á plóg við keppnishaldið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.