Eins og ávextir og ber | Kristín Einars kíkir í leikhús

Heiðrún Emma Einarsdóttir, leikhúsgestur, með Imma Ananas sem Eysteinn Guðbrandsson leikur. MYND: KSE
Heiðrún Emma Einarsdóttir, leikhúsgestur, með Imma Ananas sem Eysteinn Guðbrandsson leikur. MYND: KSE

Það ríkti áþreifanleg eftirvænting þegar spenntar fjögurra og sex ára ömmustelpur létu sig sökkva niður í bíóstólana í Bifröst til að fylgjast með frumsýningu Ávaxtakörfurnar í uppfærslu Leikfélags Sauðárkróks. Amman og mamman smituðust af spennunni og fljótlega voru ljósin slökkt og sviðsljósin kviknuðu í fallegri leikmynd. Strax í upphafi var maður sannfærður um að þarna hefðu lifnað við ávextir og eitt lítið jarðarber í risastórri ávaxtakörfu. Þess má til gamans geta að Leikfélag Sauðárkróks hefur áður sýnt þetta verk, fyrir réttum tuttugu árum síðan.

Það sem vakti fyrst eftirtekt mína sem amatörs í leikhúsrýni var frábært rennsli á frumsýningu. Ég viðurkenni að oft sækist ég frekar eftir að sækja seinni sýningar, enda hafa uppsetningar oft tekið jákvæðum breytingum þegar líður á sýningartímann. En hafi hnökrar verið á þessari sýningu fóru þeir algjörlega framhjá mér.

Ég sá ekki betur, með mínum miðaldra gleraugum, en sýningin væri borin uppi af fólki á aldrinum 20 til rúmlega 25 ára, sem er einstakt afrek út af fyrir sig. Þarna tel ég að leiklistarstarf grunnskólanna sé að skila sér með fólki sem strax á þessum aldri er í mörgum tilfellum orðið þaulreynt í áhugaleikhúsi og getur leikið, sungið og dansað eins og enginn sé morgundagurinn.

Þá er það ekki síðri mannauður að eiga frábæran leikstjóra í röðum heimamanna. Sigurlaug Vordís, eða Silla eins og flestir kalla hana, hefur einhvern meðfæddan sjarma og lífsgleði sem virðist auðveldlega smitast út í leikhópinn. Að þessu sinni eru leikarar níu talsins en nærri því fjórfaldur sá fjöldi á bakvið tjöldin, enda mikil vinna í búningum, lýsingu og tónlist, svo eitthvað sé nefnt. Saman skapar þessi hópur skothelda sýningu með frábærum leik, vandaðri tónlist og fallegri umgjörð.

Þegar horft er á sýningu af þessu tagi er alltaf erfitt að taka einhver nöfn út, enda þekkir undirrituð áhugaleikhúslífið og veit að þar skiptir hvert innslegið orð í leikskránni, hvert saumspor í búningum og hver pensilstroka í sviðsvinnu ekki síður máli heldur en leikurinn, söngurinn og vinna þeirra sem halda utan um alla spotta. Það er þó freistandi að nefna magnaða frammistöðu hinnar ungu Ástu Ólafar Jónsdóttur í hlutverki Mæju jarðarbers og hina mögnuðu söngkonu Flóru Rún Haraldsdóttur í hlutverki Geddu gulrótar. Fyrir ættfræðinörda eins og mig er líka magnað að hugsa til þess að á sviðinu eru annars vegar systkinapar og náfrændi og hins þegar systkinaþrenna, sem samanlegt skipa tvo þriðju leikhópsins.

Það er skemmst frá að segja að leikhópurinn skilar stórkostlegri sýningu. Haraldi Má, sem fer með hlutverk Garðars græna banana, tekst einstaklega vel að kalla fram hlátur í þessu hlutverki sem öðrum sem maður hefur séð hann fara með. Ingi Sigþór hefur magnaða hæfileika til að bregða sér í ólík hlutverk, að þessu sinni sem hinn ábúðarfulli Guffi banani sem tekur lífvarðar-hlutverk sitt mjög alvarlega. Með Emelíönu Lillý hefur undirrituð fylgst síðan hún lék Ídu í Kattholti forðum og vonandi eigum við eftir að sjá meira af henni og öllum hinum í framtíðinni. Bróðir hennar, Eysteinn Ívar hefur þann skemmtilega hæfileika að leika með öllu andlitinu og svipbrigði og túlkun Imma ananas er stórkostleg. Systkinin Alex, Kristeyju og Fanneyju Rós Konráðsbörn eru kannski ekki eins reynd í bransanum en frábær viðbót við góðan leikarakjarna. Þau fyrrnefndu fara með hlutverk Padda og Palla peru og setja skemmtilegan svip á sýningun, hvort sem þau eru í forgrunni eða bakgrunni. Það sama má segja um Fanneyju Rós sem túlkar Rannveigu rauða epli af mikilli innlifun.

Hér má líka hrósa sérstaklega búningavinnu, sem augljóslega liggur mikil vinna og útsjónarsemi í, sem og fallegri sviðsmynd sem í einfaldleika sínum skapar skemmtilega umgjörð um uppsetninguna. Þá finnst mér við hæfi að þakka og hrósa formanni leikfélagsins til 15 ára, Sigurlaugu Dóru Ingimundardóttur, fyrir vel unnin störf í þágu félagsins. Lulla er nú á förum úr héraðinu en vonandi fáum við áfram að njóta krafta hennar á einhvern hátt.

Ég vil að lokum minna á mikilvægi boðskaparins í sýningunni. Í leikskrá kemur fram að höfund verksins, Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur (Kikku), óraði ekki fyrir vinsældum þess eða langlífi þegar það leit fyrst dagsins ljós fyrir 30 árum. Inntakið er einelti og útskúfun og hvernig eitt lítið jarðarber og gulrótin sem eru utangarðs, geta breytt heilu samfélagi í átt til jafnréttis og bræðralags. Sögulokin verða þau að á endanum líður öllum betur. Því miður á þessi boðskapur ekki síður erindi til okkar þrjátíu árum síðar, jafnvel í okkar litla og að mörgu leyti góða samfélagi.

Ég vil að lokum hvetja leikhúsgesti til að bregða sér í Bifröst og njóta gæðastunda með sínum nánustu og öðrum gestum. Að leikhúsferð lokinni vil ég hvetja alla til að hugleiða boðskap verksins, yfirfæra hlutskipti jarðarbers og gulrótar yfir á hópa sem allt of oft verða fyrir aðkasti og ræða þessar samlíkingar við börnin sín. Þannig getum við gert samfélagið okkar betra. Það vill jú enginn enda í mygluholunni.

Til hamingju með sýninguna, Leikfélag Sauðárkróks, og takk fyrir mig og mínar, skemmtunina og boðskapinn.

Kristín Sigurrós Einarsdóttir
leikhúsreynslubolti

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir