Einarar og Evrópusambandið
Íslenskt samfélag stendur á krossgötum og því er ekki undan því vikist að taka erfiðar ákvarðanir.
Þeir flokkar sem nú bjóða fram til Alþingis og halda því fram að innganga í Evrópusambandið sé eina lausnin á þeim vanda, sem við stöndum frammi fyrir, fara villu vegar. Þeir sem halda slíku fram ljúga með þögninni og leiða alveg hjá sér að nefna ókostina, sem aðild að Evrópusambandinu hefði í för með sér.
Þeir hagsmunir sem okkur ber að standa vörð um eru fyrst og fremst höfuð atvinnuvegir okkar að fornu og nýju, íslenskur sjávarútvegur og landbúnaður. Norðmenn hafa tvisvar sótt um aðild að Evrópusambandinu og reyndu í bæði skiptin að fá varanlegar undanþágur frá sameiginlegri fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Í bæði skiptin mistókst þeim hrapalega og sem betur fór hafði norskur almenningur bein í nefinu til þess að hafa vit fyrir misvitrum stjórnmálamönnum og forða þjóðinni frá aðild í bæði skiptin. Fiskveiðistefna Evrópusambandsins rústaði breskum sjávarútvegi og er fyrir löngu svo komið að sjómenn í Bretlandi eru upp á ríkisstyrk komnir og lepja dauðann úr skel. Er það virkilega slík framtíð sem Evrópusambandssinnar óska einni mikilvægustu atvinnugrein á Íslandi ?
Innganga í Evrópusambandið yrði sömuleiðis mikið högg fyrir landbúnaðinn. Fyrirsjáanlegt er að það hefði í för með sér mikinn samdrátt í atvinnugreininni og að innflutningur á landbúnaðarvörum myndi aukast til muna. Mikilvægt er að hlúa að matvælaframleiðslu hér á landi, enda varðar það þjóðaröryggi okkar, ef Íslendingar yrðu algjörlega háðir innflutningi á matvælum.
Umræður um Evrópusambandsmál eiga fyllilega rétt á sér, en þá gengur ekki að fjalla um þau eins og trúarbrögð. Til Evrópusambandsins var stofnað með það að fyrir augum að tryggja frið í Evrópu og töldu höfundar þess, að það yrði best gert með efnahagslegum samruna. Það er því ljóst að Evrópusambandið er pólitískt samband og því verður að ræða inngöngu í það á þeim forsendum. Þær þjóðir sem hafa gengið í Evrópusambandið vegna skammtíma hagsmuna hafa rekist illa í ESB og eru litnar hornauga af hinum stærri og drottnandi þjóðum. Slíkrar framtíðar óska ég ekki Íslandi.
Í allri þeirri umræðu og gerjun sem hefur verið um málefni Íslands og Evrópusambandsins undanfarið hefur verið unnið markvisst að því meðal Samfylkingarinnar og annarra Evrópusambandssinna að telja Íslendingum trú um að okkur séu allar bjargir bannaðar, nema við göngum í ESB. Ekki hefur verið mikið rætt um þau miklu vandamál sem ESB lönd standa frammi fyrir um þessar mundir og þá staðreynd að þrátt fyrir fall fjármálakerfisins á Íslandi og þær gríðarlega auknu skuldir ríkissjóðs að þá stöndum við samt sem áður fjárhagslega betur en meginn hluti ESB landa! Og þrátt fyrir að atvinnuleysi hér á landi nú um stundir sé í sögulegu hámarki er það samt sem áður minna en atvinnuleysi er að meðaltali undanfarin ár í Finnlandi og austurhluta Þýskalands. Sömuleiðis er það ekki nefnt, að Íslendingum tókst af eigin rammleik að rísa á undra skömmum tíma úr örbirgð í það að skipa sér á bekk meðal ríkustu þjóða heims!
Mér er það alveg til efs að þeir sem eru í fylkingarbrjósti í trúboðinu um aðild að ESB, trúi sínum eigin málflutningi
Í gegnum tíðina hafa margir góðir menn varað okkur við að falla ekki fyrir gylliboðum að utan. Þá koma mér í hug þeir nafnar Einar Oddur og Einar Þveræingur. Einar Oddur varaði eindregið við því á sínum tíma, að við notuðum Jöklabréfin til þess að fjármagna ýmislegt, sem mætti bíða betri tíma. Um þetta hafði hann mörg varnaðarorð og hefðu menn betur lagt við hlustir.
Einar Þveræingur varaði landa sína við á sínum tíma, þegar Þórarinn Nefjólfsson flutti mörlandanum þau tíðindi Ólafs konungs Haraldssonar að hann vildi vera þeirra drottinn og bað þá að gefa sér Grímsey, því þar mætti “fæða her manns ok ef þar er útlendr herr ok fari þeir með langskipum þaðan, þá ætla ek mörgum kotbúöndunum muni þykkja verða þröngt fyrir durum.”
Þeir sem lofa því að hér muni drjúpa smjör af hverju strái, ef við göngum í ESB, fara villu vegar. Mínar skoðanir eru öndverðar við þessa menn og ég held að við höfum nú þegar fengið allt sem mestu skiptir með ESS samningnum.
Höfundur : Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, sækist eftir 1.-2. sæti á framboðslista Sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.