Einar Eylert Gíslason - Minningarorð
Nú hefur riðið Gjallarbrú eftirminnilegur garpur sem er Einar Eylert Gíslason á Syðra-Skörðugili, fyrrum bóndi þar og ráðunautur. Einar fæddist á Akranesi 5. apríl 1933, hann lauk búfræðiprófi á Hvanneyri 1951 og stundaði verklegt búfræðinám og vinnu á búgörðum í Danmörku og Svíþjóð árin 1951 til ´53 og lauk búfræðikandídatsprófi frá Hvanneyri 1955. Ekki verður ævi- né starfsferli Einars gerð tæmandi skil hér en á árunum 1960 til 1974 var Einar ráðsmaður á Hesti, í því fólst bústjórn og dagleg yfirstjórn þeirra viðamikilu tilrauna sem þar fóru fram í sauðfjárrækt.
Árið 1974 vatt Einar sínu kvæði í kross og fluttist norður í Skagafjörð, að Syðra-Skörðugili, ásamt eiginkonu sinni Ásdísi Sigrúnu Sigurjónsdóttur, húsmóður og kennara, en þau giftust 1971. Þar hófu þau búskap fyrst í stað í félagi við foreldra Ásdísar en faðir hennar var hinn landsþekkti hesta- og lífslistamaður; Sigurjón Jónasson – Dúddi á Skörðugili. Samhliða búskap var Einar héraðsráðunautur hjá Búnaðarsambandi Skagfirðinga til 1984 og jafnframt framkvæmdastjóri Hrossaræktarsambands Skagfirðinga og svo formaður þess til 1993.
Einar var ólgandi kraft- og dugnaðarmaður og hófst þegar handa, með sína frábæru eiginkonu sér við hlið, að efla búskapinn á Syðra-Skörðugili. Fleyg urðu ummæli Dúdda sem kvað hafa sagt um tengdasoninn: „Hann ræktar svo langt sem augað eygir, hann byggir fyrir milljón á dag!“
Búgreinarnar sem Einar stundaði voru sauðfjár-, hrossa- og loðdýrarækt. Auk þess að stunda búskap í þessum greinum var Einar forystumaður í félögum bænda í öllum greinunum bæði á héraðs- og á landsvísu. Einar var afreksmaður í fjárrækt, enda afburða kunnáttumaður á því sviði, mótaður af löngu samstarfi á Hesti við Halldór Pálsson sauðfjárræktarsérfræðing og búnaðarmálastjóra. Hann varð einnig undraskjótt afburðagóður loðdýraræktandi. Loðdýrabúið á Syðra-Skörðugili starfar enn í dag og hefur starfað samfellt allt frá því að það var stofnað á upphafsárum seinna skeiðs loðdýaræktarinnar á Íslandi. Það eitt og sér er ekkert smáafrek í sveiflakenndu árferði búgreinarinnar.
Megin ástæða þess að ég bregð þó niður penna hér eru afskipti Einars af hrossaræktinni. Fyrsta skipti sem ég sá Einar Eylert í eigin persónu var á héraðssýningu í Skagafirði á seinni hluta áttunda áratugarins en þá réðust við tveir félagar á Akureyri, nýkomnir með bílpróf, í að keyra vestur í Skagafjörð, sunnudag einn snemmsumars, til að fylgjast með héraðssýningu á Vindheimamelum í Skagafirði. Allt var þá mjög með öðru sniði en í dag. Niðurstöður dóma voru fyrst kynntar þennan síðasta dag sýningannar. Dagskráin var með þeim hætti að ráðunauturinn í héraðinu, Einar Eylert, setti samkunduna og flutti ávarp, sóknarpresturinn fór með bæn og hrossaræktarráðunautur BÍ kynnti svo hrossin og lýsti dómum um leið og þeim var riðið og þau efstu verðlaunuð.
Þetta er stund sem mér líður aldrei úr minni. Ávarpsorð Einars voru flutt af slíkum áhersluþunga og orðavalið slíkt að í minningunni þykir mér setningin „Hnífurinn og töngin eru bestu tæki ræktunarmannsins!“ hafi hljómað eins og „viðlag eða stef“ í ræðunni allri. Líklega er það þó ekki rétt munað en svo fast greyptust þessi orð í minni mér og svo sönn eru þau. Skera ber rýrðina og gelda alla fola sem ekki eru líklegir til framfara, þannig nást framfarir í hrossarækt.
Fyrsta skipti sem ég svo hitti Einar var í heimsókn á Skörðugili nokkrum árum síðar, þegar við búvísindanemendur á Hvanneyri fórum í námsferð um Norðurland, eftirminnileg heimsókn. Ári síðar lauk ég prófi frá Hvanneyri og vann þá lokaverkefni sem var rannsókn á frjósemi og skyldum þáttum í íslenska hrossastofninum. Folaldaskýrslu sem færðar voru á vegum hrossaræktarsambandanna um land allt voru gögnin sem rannsóknin byggðist á, ég veitti því athygli að best skýrsluskil og nákvæmast færðar voru skýrslurnar úr Skagafirði og allar eða svo gott sem voru þær skrifaðar með sömu læsilegu rithendinni sem ég síðar sá af öðrum skrifuðum gögnum að var rithönd Einars E. Gíslasonar. Hann var enda afburða skýrsluhaldsmaður.
Ótrúlegrar elju Einars í skráningu samræmdra upplýsinga sér víða stað í æviverki hans, s.s. í skráningu árlegra mælinga á folöldum og trippum sem tilheyrðu ræktuninni í Skuggafélaginu sem var stofnræktarfélag hrossa út af Skugga 201 frá Bjarnanesi. Einar var nemandi Gunnars Bjarnasonar og hreifst af honum og þá m.a. af hornfirsku hrossunum. Ungur eignaðist Einar Nökkva 260 frá Hólmi, son Skugga og hélt tryggð við þann stofn og núna á ævikvöldinu ræktaði hann svo nýjan Nökkva en nú frá Syðra-Skörðugili. Hátt dæmdan stóðhest og afrekshest í keppni, m.a. sigurvegari B-flokks gæðinga á landsmótinu 2016. Ættþræðir Nökkva yngri liggja þó víðar en í hornfirsku hrossin í takt við nútíma ræktunarstefnu.
Framan af á mínu starfsferli sem hrossaræktarráðunautur BÍ var Einar formaður Félags hrossabænda. Við áttum þar prýðilegt samstarf um mörg málefni og Einar var í raun einn af hvatamönnum þess að ráðist var í grundvallabreytingar á dómkerfi kynbótahrossa árið 1990. Dómstiginn nákvæmlega skilgreindur og tekin upp ný aðferð við dómana, teygnin. Mikil átök urðu þó er fyrstu niðurstöður dóma samkvæmt hinni nýju aðferð tóku að birtast, auk þess sem Einar var ekki að öllu leyti sammála útfærslu dómstigans eins og hún var gerð og hefur verið notuð allar götur síðan ásamt téðri aðferð. Þetta leiddi til snarpra átaka en öll él birtir upp um síðir.
Núna á seinni árum hef ég stöku sinnum hitt Einar, það hefur verið ánægjulegt. Maður hefur þar hitt fyrir sáttan mann á ævikvöldi, miklu starfi af lokið og fjölskyldan heldur merki hans hátt á loft með síkvikri athafnasemi.
Enn er ógetið eins þáttar í ævistarfi Einars sem er ljósmyndunin en um árabil tók hann með markvissum hætti myndir af kynbótahrossum á sýningum. Þær myndir nýttust með ýmsum hætti í gegnum árin og eru nú drjúgur hluti af ljósmyndasafni Söguseturs íslenska hestsins og sá hluti safnsins sem best er flokkaður og skráður. Þó nokkrum árum áður en að ég tók við sem forstöðumaður SÍH hafði Einar einmitt samband við mig en hann var þá að grafast fyrir um upplýsingar því hann var þá að ganga frá safninu í hendur setursins. Árið 2016 setti Sögusetrið í samstarfi við RML upp sýninguna Uppruni kostanna, þar sem framvinda íslenskrar hrossaræktar síðustu 100 árin er sýnd í hnotskurn. Ómetanlegt myndefni úr safni Einars kom þar aldeilis að góðum notum.
Ég votta fjölskyldunni einlæga samúð mína og bið minniningu Einars Eylerts Gíslasonar blessunar.
Kristinn Hugason.
Áður birst í 35. tbl. Feykis 2019
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.