„Ég er meira spenntur heldur en stressaður“

Sigvaldi fagnar því að vera kominn í sextán manna úrslit. Mynd: mbl.is.
Sigvaldi fagnar því að vera kominn í sextán manna úrslit. Mynd: mbl.is.

Skagfirðingurinn Sigvaldi Helgi Gunnarsson segist „meira spenntur heldur en stressaður,“ og vera búinn að læra textann, en hann tekur þátt í átta manna undanúrslitum The Voice Ísland á Skjá einum. Útsendingin hefst klukkan 20 og hefur þátturinn skipað sér sess meðal vinsælustu sjónvarpsþátta landsins.

Þegar Feykir sló á þráðinn til Sigvalda í gærkvöldi var hann staddur fyrir sunnan vegna æfinga. Hann sagðist hafa verið þar meira og minna undanfarnar vikur, en æfingar fara fram í Atlantic studios á Ásbrú í Reykjanesbæ.

„Ég er bara nokkuð vel staddur, það er ekkert að plaga mig. Ég er ekki farinn að fá kvíðakast eða hálsbólgu eða neitt slíkt. Ég kann textann og er bara nokkuð öruggur,“ sagði Sigvaldi aðspurður um hvernig kvöldið í kvöld legðist í hann.

Sigvaldi segist mikið verða var við góðan stuðning úr Skagafirði. Hann verður með gott stuðningslið í salnum í kvöld, en mamma hans, sem býr á Egilsstöðum, ætlar að fljúga þaðan. Þá verða kærastan hans og tveir hljómsveitarfélagar á staðnum. Faðir hans og bróðir verða staddir í Danmörku en munu fylgjast með þar.

Í kvöld er það þjóðin sem kýs einn keppanda úr hverju liði áfram. Þeir fjórir sem þá standa eftir munu svo keppa í úrslitum að viku liðinni, þar sem hver keppandi flytur tvö lög og þjóðin kýs sigurvegarann í símakosningu. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir