Ég er Íslendingur! Áskorandinn Laufey Kristín Skúladóttir
Ég var eitt sinn spurð að því á kaffistofu á Sauðárkróki hvaðan ég væri. Hvort ég væri Skagfirðingur. Þær samræður fóru svo yfir í það hvað þyrfti til til að geta talist Skagfirðingur, hvort það væri nóg að manni fyndist það sjálfum eða hvort það þyrfti að uppfylla einhverjar tilteknar kröfur. Um það voru skiptar skoðanir, eins og vera ber.
Við tók svo fræðsla í því hvernig áttirnar liggja í firðinum og að allir ekta Skagfirðingar segja „fram í Varmahlíð“ en ekki „inn í Varmahlíð“. Með því að opinbera þessa vanþekkingu mína áttuðu sig kannski einhverjir á því að ég væri frekar Húnvetningur en Skagfirðingur. Það er því ákveðinn áfangi að fá að skrifa í héraðsfréttablaðið Feyki sem brottfluttur Skagfirðingur.
Ólíkt öðrum sem hafa fengið að halda á áskorendapennanum þá eru minningar mínar úr Skagafirði ekki tengdar barnæskunni. Mín tengsl við Skagafjörð eru frá árunum í FNV, sem voru oft mjög fjörug og svo frá búsetu okkar fjölskyldunnar á Sauðárkróki frá 2013-2020. Á báðum þessum tímabilum eignaðist ég vini fyrir lífstíð og byggði upp færni og reynslu sem hefur mótað mig sem manneskju.
Nú líður að tímamótum þar sem Skagfirðingar þurfa að taka afstöðu hvort þeir vilja vera ein heild. Skagfirðingar, íbúar Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps, ætla brátt að kjósa um sameiningu sveitarfélaganna tveggja. Íbúarnir þurfa þá að taka afstöðu til tillögunnar og gera það upp við sig hvort það eru fleiri kostir eða fleiri gallar við að sameina sveitarfélögin tvö.
Ef ég væri ennþá íbúi í Skagafirði þá veit ég hvað ég myndi kjósa. Það er mín skoðun að við séum sterkari saman en í sitthvoru lagi, að öryggi og kraftur felist í fjöldanum. Ég hef séð hvað samfélagið í minni gömlu sveit í Húnaþingi vestra hefur blómstrað og hvað samkenndin og samstaðan er þar mikil. Ég vona hins vegar að sama hver niðurstaðan í kosningunum verður að þá beri íbúum Skagafjarðar gæfa til að halda áfram að byggja upp gott samfélag. Því það skiptir mun meira máli en sveitarfélagamörk eða stjórnsýslueiningar. Fólk vill búa í góðu og framsýnu samfélagi þar sem kærleikur og virðing fyrir náunganum ríkir.
Ég hef búið víða og allir staðirnir hafa mótað mig að einhverju leyti. Ef einhver spyr mig núna hvaðan ég sé þá segist ég vera frá Íslandi, ég er Íslendingur. Það er sama svar og ég gaf á kaffistofunni á Sauðárkróki um árið. Fyrir mér er það rétta svarið, bæði þá og nú.
Ég ætla að fá vinkonu mína hérna í Kaupmannahöfn hana Jóhönnu Guðrúnu Jóhannesdóttur, Íslending og Skagfirðing, til að taka við áskorendakeflinu af mér.
Áður birst í 5. tbl. Feykis 2022.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.