Efnahagsstefna Samfylkingarinnar skrifuð af Icesave-fyrirsætunni
Fyrirsæta Icesave, Jón Sigurðsson, fyrrum formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins,sem var helsta númerið í auglýsingabæklingi Landsbankans fyrir útibú hans í Hollandi - ekki er ár síðan hann kom út - er meðal höfunda efnahagsstefnu Samfylkingarinnar.
Ritstjórinn er enginn annar en fyrrum aðstoðarmaður Icesave-ráðherrans Björgvins G. Sigurðssonar, Jón Þór Sturluson. Hann gat sér gott orð fyrir árangursríkt samstarf við Tryggva Þór Herbertsson þegar þeir skrifuðu saman varnarrit fyrir olíusamráðssvindli olíufélaganna um árið. Þeir félagarnir komust að því að svindlið hefði nánast ekkert skaðað hag þjóðarinnar.
Þaðverður að segjast eins og er að þrátt fyrir að mörgum orðum sé raðað saman í efnahagsstefnunni er innihald hennar afar rýrt í roðinu. Það er óljós greining á ástandinu og mjög óljósar áherslur um hvernig eigi aðfara út úr þröngri stöðu. Talað er um að halda áfram að lækka vexti rétt eins og sú vegferð sé hafin að einhverju marki. Þetta er eins og að koma að stórbrunnu húsi og byrja á að tala um að tímabært sé að sækja kannski vatn í brunninn. Verst þótti mér að lesa um nýtingu sjávarauðlindanna en í þeim torræða kafla má helst greina að það eigi að auka flækjustigið og torvelda aukningu veiðiheimilda.
Til samanburðar er stefna Frjálslynda flokksins í efnahagsmálum á mannamáli sú að auka framleiðsluna. Við viljum auka veiðiheimildir í þorski strax um 100.000 tonn og ná þannig í tugi milljarða í beinhörðum gjaldeyri. Sömuleiðis viljum við gefa handfæraveiðar frjálsar en það frelsi myndi búa til hundruð starfa vítt og breitt um landið og í lokin er rétt að geta þess að Frjálslyndi flokkurinn vill ekkert hálfkák í lækkun vaxta og afnámi verðtryggingar.
Sigurjón Þórðarson í öðru sæti á lista Frjálslynda flokksins í Norðvesturkjördæmi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.