Dreymir um að fylla húsið af lífi
Um miðjan nóvember síðastliðinn tóku þær Anna Margrét Arnardóttir og Kristín Ósk Bjarnadóttir við rekstri Félagsheimilisins á Blönduósi. Um er að ræða stórt og glæsilegt hús sem býður upp á ótal möguleika undir fjölbreytt starf og viðburði fyrir Blönduósinga og nærsveitunga. Að sögn Önnu Margrétar og Kristínar er kominn tími á viðhald á ýmsu, innan sem utan, og er ljóst að ærið verk er fyrir höndum. Þær segjast hafa ákveðið að hella sér í þetta verkefni af einskærri hugsjón um að blása lífi í menningarlíf svæðisins.
„Draumurinn er að það verði meiri menning í þessu húsi en þetta er stórt og mikið hús og hefur verið illa nýtt. Hugsunin hjá okkur er að fá fleira fólk og nýta það betur. Okkur dreymir um að það verði ekki bara stórir viðburðir heldur að húsið verði nýtt betur undir smærri viðburði, s.s. fundi, ráðstefnur og veislur og að við getum sniðið húsið eftir þörfum,“ segja stöllurnar sem vinna nú hörðum höndum að því að fá fleiri slíka viðburði inn í félagsheimilið.
Anna Margrét og Kristín viðurkenna að þegar þær ákváðu að taka að sér rekstur félagsheimilisins vissu þær ekki alveg hvað þær voru að koma sér útí, bæði hvað varðar ástand og aðbúnað hússins en einnig hafi þær þurft að demba sér í að kynna sér skemmtanabransann. Þær hafi þó fullan stuðning eiginmanna sinna og barna sem taka óspart þátt í þessu nýja ævintýri með þeim.
Ítarlegt viðtal við Önnu Margréti og Kristínu Ósk má lesa í Feyki sem kom út í dag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.