Dóttir rússneska Tindastólsrisans í úrslitum á ÓL
Einhverjum gætu þótt Skagfirðingar, já eða Feykir, ganga freklega fram í að tengja Ólympíukempur til Skagafjarfðar. Það er því um að gera að æra óstöðugan og halda áfram. Nú lét Morgunblaðið vita af því að blakdrottningin Ekaterina Antropova sé komin í úrslit á Ólympíuleikunum með ítalska landsliðinu. Ekaterina er dóttir Michail Antropov sem spilaði körfubolta með liði Tindastóls árin 2000-2003 en hún fæddist einmitt á Akureyri árið 2003.
Michail bjó á Króknum ásamt konu sinni, Olgu. Ekaterina er ekki með íslenskan ríkisborgararétt en hún er með bæði ítalskan og rússneskan ríkisborgararétt.
Michail spilaði þrjú tímabil með liði Tindastóls, gerði 852 stig í 66 leikjum en flest stig í einum leik gerði hann gegn liði Grindavíkur í framlengdum leik í Grindavík 17. febrúar 2002. Rússneski risinn spilaði þá 41 mínútu og gerði 33 stig í leik sem endaði 105-108 fyrir Stólana. Hann var þó ekki stigahæstur í liðinu því Daniel Maurice Spillers gerði 35 stig en spilaði reyndar allar 45 mínúturnar. Tveir ungir leikmenn sátu á bekknum allan tímann; þeir Axel Kárason og Helgi Rafn Viggósson.
Nú er bara að muna: Áfram Ítalía! Hér má sjá Big Mic bregða fyrir undir lok besta íþróttaviðtals allra tíma >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.