Deildarmeistarar í flokki 12 ára og yngri
Golfklúbbur Skagafjarðar sendi í fyrsta skipti drengjasveit á Íslandsmót golfklúbba 12 ára og yngri en mótið fór fram dagana 25.-27. ágúst og var leikið á þremur keppnisvöllum á höfuðborgarsvæðinu. Leikið er eftir PGA Junior League fyrirmyndinni, sem kallast PGA krakkagolf á Íslandi.
Meðalforgjöf leikmanna í hverri sveit fyrir sig ræður í hvaða deild er spilað og lenti GSS hópurinn í gulu deildinni sem má flokka sem 2. deild. Þeir drengir sem GSS sendi fyrir sína hönd voru þeir Brynjar Morgan Brynjarsson, Grétar Freyr Pétursson, Gunnar Atli Þórðarson, Karl Goðdal Þorleifsson, Ólafur Bjarni Þórðarson og Sigurbjörn Darri Pétursson. Þeir eru allir með mikinn metnað fyrir golfíþróttinni og hafa stundað æfingar stíft í sumar undir leiðsögn Atla Freys Rafnssonar og hans aðstoðarmanna.
Strákunum var skipt upp í tvo þriggja manna hópa og spiluðu báðir hóparnir níu holur í hverri umferð með Texas scramble höggleiks fyrirkomulagi, sem skiptist svo upp í þrjá þriggja holu leiki og fengu þeir eitt eða hálft stig ef þeir sigruðu braut eða gerðu jafntefli. Þegar búið var að spila þrjár brautir var farið yfir hvernig gekk og gefin flögg sem voru tekin saman að leik loknum hjá báðum liðum.
Sveitirnar hófu leik á föstudeginum og var spilað í Mýrinni hjá GKG (Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar) í frábæru veðri. Þar unnu þeir GKG strákana með 5,5 flögg af 6 mögulegum. Á laugardeginum spiluðu þeir á Sveinkotsvelli hjá Golfklúbbi Keilis í Hafnarfirðinum á móti GK í ekki svo skemmtilegu veðri því það rigndi allan tímann. Þar unnu þeir með 3,5 flögg á móti 2,5. Á lokadeginum var spilað á Landinu hjá GR (Golfklúbbi Reykjavíkur) á móti GR í fínasta veðri og voru leikar svo jafnir að úrslitin réðust ekki fyrr en á lokapútti dagsins. Verðlaunaafhending og lokahóf var svo haldið að keppni lokinni hjá GR og má segja að drengirnir hafi staðið sig vonum framar á sínu fyrsta, og vonandi ekki síðasta, Íslandsmóti fyrir hönd GSS. Til hamingju strákar með glæsilega spilamennsku, þið voruð GSS til sóma, bæði innan vallar sem og utan vallar.
Foreldrar drengjanna vilja senda sérstakar þakkir til Atla Freys Rafnssonar, þjálfara, sem hefur byggt upp þessa ungu og efnilegu golfdrengi bæði sem einstaklinga og ekki síst sem liðsheild. Það er enginn vafi á að þessi árangur hefði aldrei náðst ef ekki væri fyrir hans framlag til barna- og unglingastarfsins hjá GSS. Framtíðin er björt fyrir GSS með hann í sínu þjálfarateymi. Takk fyrir allt Atli.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.