Leiðari: Að vera stolt Tindastólsmamma
Það er svo mikil gleðitilfinning að vera stolt hvort sem það er af sjálfum sér, maka sínum eða fólkinu í kringum sig. En stoltið sem umlykur mann þegar börnin eiga í hlut situr meira í manni, því þau eru manni allt.
Um síðastliðna helgi fann ég nokkrum sinnum fyrir þessari tilfinningu því ég brunaði af stað til Keflavíkur á fjölliðamót hjá MB11 (minni bolta 11 ára) í körfubolta með drenginn minn. Ég var nú ekki sú eina á ferðinni því þarna voru mættir margir foreldrar með drengina sína til þess að etja kappi við önnur lið alls staðar af landinu. Tindastóll átti tvö lið skráð og var gengi þeirra í fyrra það gott að þeir fengu að byrja í A-riðli með þeim bestu á landinu. A-riðill samanstóð af sex liðum og það sem var svo gaman að sjá var að aðeins eitt af þeim var úr Reykjavík og öll hin frá landsbyggðinni.
Þegar kom að fyrsta leiknum var stress í okkar mönnum en þá sérstaklega mér, ég skalf á beinunum, því við vissum ekki við hverju við áttum að búast frá þessum liðum þ.e. hversu góð þau væru. Það er nefnilega ekkert verra en þegar farið er inn í leikina með trompi en það er valtað yfir þá og það hefði alveg eins getað gerst. En þeir hafa nú samt ekki oft lent í því nema þegar það hefur vantað hálft liðið með á mótin. En okkar menn komu mjög ákveðnir til leiks því fyrsti leikur var við ríkjandi Íslandsmeistara í MB10, (minni bolta 10 ára) Grindavík. Stólastrákar voru með yfirhöndina nánast allan leikinn nema síðustu mínúturnar. Það er nefnilega smá stökk að fara úr B-riðli yfir í A-riðil því leikreglurnar breytast og spilað er á stærri velli. Þó svo að okkar menn hafi verið súrir yfir því að tapa þá var stutt í brosið því þarna sáu þeir hversu megnugir þeir eru og ef þeir gefa sig alla í leikinn allan tímann og spila vel saman þá geta þeir vel sigrað þessi lið. Þarna kom fyrsta stoltið mitt sem stóð með mér alla helgina og fékk svo reglulega áfyllingu því það var ekki bara minn strákur sem gerði mig stolta heldur allir í liðinu. Strákarnir enduðu með að tapa þrem leikjum með litlum mun og vinna tvo og var riðillinn mjög jafn og skemmtilegur. Allt hörkuleikir sem hefðu alveg getað farið okkur í hag með smá heppni.
Að fylgja krökkunum sínum í mót og sjá þau vaxa og dafna í leik og starfi með hverju árinu er yndislegt. Ég er oft spurð hvernig ég nenni alltaf að vera dröslast út um allt með þau á öll þessi móti allt árið um kring, því þau æfa nokkrar íþróttir. Að sjálfsögðu getur stundum verið flókið að púsla þessu saman en málið er að mér finnst þetta svo skemmtilegt að ég held stundum að ég fái meira út úr þessum ferðum en þau. En það er akkúrat svona sem við búum til upprennandi keppnisfólk, að styðja þau áfram og vera alltaf til staðar. Ég er því stolt Tindastólsmamma og hlakka til næstu ferðar sem er um næstu helgi á Akureyri.
Áfram Tindastóll!
Sigríður Garðarsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.