Byggðasafn Skagfirðinga toppar sig í gestafjölda

MYND BYGGÐASAFN SKAGAFJRÐAR
MYND BYGGÐASAFN SKAGAFJRÐAR

Byggðasafn Skagfirðinga heldur áfram að toppa sig í gestafjölda. Í áramótakveðju safnsins var sagt frá því að starfsfólkið hefði tekið á móti 69.060 manns á árinu sem nú er liðið. Svo það er óhætt að segja að þau hafi haft í nægu að snúast hjá Byggðasafninu. Þetta eru 5.893 gestum fleira en heimsóttu safnið í fyrra en þá voru 63.167 manns sem komu í heimsókn.

Gestir safnsins eru þeir sem heimsækja Glaumbæ og Víðimýrarkirkju, en gestir í Glaumbæ voru 62.733 og í Víðimýrarkirkju 6.327. Í áramótakveðjunni er stiklað á stóru yfir verkefnin á árinu og ber þar helst að nefna þegar 75 ára afmæli safnsins var fagnað með ýmsum hætti. Þar stóð uppúr afmælishátíðin sjálf sem haldin var á stofndegi safnsins þann 29. maí síðastliðinn. Þá var sannarlega fjör á safnsvæðinu, en um 700 manns heimsóttu Glaumbæ og fögnuðu þessum tímamótum, eins og segir í kveðjunni. Við tilefnið opnaði safnið þrjár nýjar sýningar, Byggðasafn Skagfirðinga í 75 ár- afmælissýning í Áshúsi. Sögu „Gilsstofunnar“ og „Briemsstofu“ og „Hér stóð bær“ sem er skráning Byggðasafnsins á skagfirskum torfhúsum í Gilsstofu.

Fornverkaskólinn stóð fyrir tveimur vel heppnuðum námskeiðum í torfhleðslu í september, annars vegar á Tyrfingsstöðum á Kjálka og Syðstu- Grund í Blönduhlíð. Við það tilefni stóð safnið fyrir málþingi í Kakalaskála þann 4. september síðastliðinn. Umfjöllunarefnið var varðveilsa byggingarhandverks þar sem torfarfurinn var í fyrirrúmi. Fornverkaskólinn hlaut viðurkenningu frá Minjastofnun Íslands 2023 fyrir framlag til varðveislu á fornu byggingarhandverki.

Í nóvember kom svo út barnabókin „Vetrardagar í Glaumbæ“ en útgáfu bókarinnar var fagnað með útgáfuhófi og opnun samnefndrar sýningar í Áshúsi í desember, þar sem hún stóð í tvær vikur. Líkt og „Sumardagur í Glaumbæ“ er bókin samstarfsverkefni Berglindar Þorsteinsdóttur safnstjóra og Jérémy Pailler listamanns. Bókin var gefin út á fjórum tungumálum. Um miðjan desember var sýningin með listaverkum bókarinnar var sett upp í Safnahúsinu á Sauðárkróki þar sem áhugasamir geta barið hana augum út janúar 2024. Áramótakveðju Byggðasafns Skagafjarðar má lesa í heild sinni HÉR.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir