Búminjasafnið í Lindabæ og Samgöngusafnið í Stóragerði búin að opna fyrir gesti

Mynd frá Samgöngusafni Skagafjarðar. Hér fyrir neðan er svo mynd frá Búminjasafninu í Lindabæ. Báðar myndir er teknar af Facebook-síðum safnanna.
Mynd frá Samgöngusafni Skagafjarðar. Hér fyrir neðan er svo mynd frá Búminjasafninu í Lindabæ. Báðar myndir er teknar af Facebook-síðum safnanna.

Bíla og tækjasöfn Skagafjarðar hafa nú opnað fyrir gesti en Búminjasafnið í Lindabæ opnaði þann 1. júní og er opið alla daga frá kl. 13-17. Samgöngusafn Skagafjarðar opnaði á laugardaginn var og er einnig opið alla daga vikunnar frá kl. 11-17. Nýir sýningargripir bætast við söfnin á hverju ári og er einnig hægt að gæða sér á vöfflum og með því á báðum stöðum alla daga. 

Búminjasafnið hóf starfssemi sína þann 28. júní 2015 en Sigmar Jóhannsson byrjaði að safna dráttarvélum um 1990. Fyrsta tækið sem hann eignaðist var Farmal Cub með sláttuvél og einnig fylgdi plógur með. Upp frá þessu fjölgaði dráttarvélum og öðrum búminjum hratt. Á safninu eru yfir 20 uppgerðar dráttarvélar, ljábrýnsluvél, hverfisteinar, hestarakstarvél, klyfberar og margt fleira sem áhugavert er að sjá og skoða. 

Samgöngusafnið í Stóragerði opnaði sitt safn þann 26. júní 2004 og er því safnið 20 ára í ár. Í dag eru um 100 tæki til sýnis í salnum og má þar nefna bíla, rútu, motorhjól, sleða, búvélar, flugþyt og ekki má gleyma öllu því smádóti sem tengist samgöngusögu Íslendinga. Fyrir utan safnið og í kringum það má svo áætla að séu í kringum 150-200 bílar og tæki í misgóðu ásigkomulagi sem flestum gestum okkar þykir ótrúlega gaman að skoða. Gunnar Kr. Þórðarson, stofnandi safnsins, var með brennandi áhuga á samgönguminjum frá unga aldri og safnaði hann sjálfur stórum hluta sýningargripanna. Gunnar gerði einnig upp bæði bíla og vélar og er hægt að sjá afraksturinn á safninu. 

Nú er bara að gera sér ferð í eða um Skagafjörðinn og skoða bæði þessi glæsilegu söfn sem Skagafjörður hefur upp á að bjóða ásamt ýmsu öðru skemmtilegu sem hægt er að skoða nánar hér.  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir