Breyting á Svæðisskipulagi Austur-Húnavatnssýslu 2004-2016

Samvinnunefnd um svæðisskipulag Austur-Húnavatnssýslu samþykkti þann 9. júní síðastliðinn tillögu að breytingu á Svæðisskipulagi Austur-Húnavatnssýslu 2004-2016. Í tilkynningu frá nefndinni eru breytingarnar eftirfarandi:

 a)    Breyting á svæðisskipulagi við Húnavelli sem felst í að gera ráð fyrir þéttbýli í Húnavatnshreppi. Í núverandi svæðisskipulagi eru Húnavellir skilgreindir sem þjónustumiðstöð – B flokkur, sem býður upp á talsverða þjónustu.

b)    Breyting á svæðisskipulagi á gagnaverslóð við Blönduós og færslu Svínvetningabrautar. Tillagan felst í að stækka lóðina úr 250 ha. í 272 ha. fyrir iðnaðar- og athafnasvæðis í landi Hnjúka. Breytingin felur í sér að samfeld lóð næst ef Svínvetningabraut er færð á um 3,0 km kafla og að sveitarfélagamörkum við Húnavatnshrepp. Núverandi landnotkun er landbúnaðarnotkun og er svæðið í útjaðri Blönduóss og að hluta framræst beitarhólf.

c)    Leiðrétting á legu háspennulínu frá Geithömrum að Hurðabaki í Húnavatnshreppi. Í ljós kom að línan var rangt staðsett í núverandi svæðisskipulagi.

Tillagan var auglýst þann 10. apríl og lá frammi til kynningar til 5. maí síðastliðinn. Frestur til að skila athugasemdum rann út þann 20. maí og bárust fjórar athugasemdir. Samvinnunefnd hefur afgreitt athugasemdirnar og sent þeim sem þær gerðu umsögn sína.

Tillagan hefur verið send sveitarstjórnum Austur-Húnavatnssýslu til samþykktar og hafa þær sex vikur til að fjalla um niðurstöðu samvinnunefndar. Samþykkt tillaga mun síðan send Skipulagsstofnun sem gerir tillögu til umhverfisráðherra um lokaafgreiðslu. Þeir sem óska nánari upplýsinga um tillöguna og niðurstöðu samvinnunefndar geta snúið sér til Blönduósbæjar, að því er segir í tilkynningu nefndarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir