Brák og Húnaþing vestra auglýsa eftir byggingaraðilum til samstarfs

Brák íbúðafélag hses. og Húnaþing vestra stefna á uppbyggingu á hagkvæmum leiguíbúðum á Hvammstanga og auglýsa því eftir byggingaraðilum til samstarfs. Byggingaraðili skal vera aðalverktaki og annast framkvæmd verkefnis í samráði við sveitarfélagið og Brák. Aðspurð hvort það skorti húsnæði í Húnaþingi vestra segir Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitatstjóri þörfina vera ansi mikla.

Í tilkynningu á vef sveitarfélagsins segir að fyrirhugað sé að byggðar verði alls átta íbúðir í fjölbýlishúsi við Norðurbraut 15. Æskilegt sé að íbúðir verði af fjölbreyttum stærðum, um 60-90 fermetrar að stærð. Við val á byggingaraðilum til samstarfs verður tekið tillit til reynslu aðila ásamt hagkvæmni og gæðum lausna.

Er fólk að flytja í Húnaþing vestra eða vantar nýtt húsnæði fyrir þá sem fyrir eru? „Bæði – það er eitt og annað sem gerir þetta að verkum hér eins og annarsstaðar á landinu. Okkur er að fjölga lítillega, en jafnt og þétt, sem eykur þörfina. Eldra fólk er sem betur fer lengur heima í sínum eignum,“ segir Unnur Valborg og bætir við að kröfur fólks til húsnæðis hafi aukist jafnt og þétt síðustu áratugi. „Við búum án efa á fleiri fermetrum í dag en var fyrir einhverjum áratugum,“ segir sveitarstjórinn.

Gögn fyrir áhugasama samstarfsaðila er hægt að nálgast með að senda tölvupóst á brakibudafelag@brakibudafelag.is og skal gögnum skilað fyrir mánudaginn 14. október 2024. Nánari upplýsingar veita Einar Georgsson framkvæmdastjóri Brákar íbúðafélags (einar.georgsson@brakibudafelag.is) og Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri Húnaþings vestra (unnur@hunathing.is)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir