Bragðdauf frammistaða Stólanna í fallbaráttunni

Tindastóll og Sindri frá Höfn í Hornafirði mættust í fallbaráttuslag í 2. deild karla á Sauðárkróksvelli í dag. Leikmenn buðu upp á leik í takt við veðrið – þokudrunga og stillu – þrátt fyrir mikilvægi leiksins fyrir bæði lið. Lokatölur urðu 1-1 sem gerði lítið fyrir liðin og þó sérstaklega Stólana sem þurfa nauðsynlega að sækja stig.

Það var fátt um fína drætti í fyrri hálfleik en gestunum hélst þó betur á boltanum. Leikmönnum Tindastóls gekk illa að hemja boltann og spilið var ákaflega dapurlegt. Undir lok hálfleiksins fengu Hornfirðingar þó upplagt færi en settu boltann rétt framhjá.

Tindastólsmenn mættu ferskir inn á völlinn fyrir síðari hálfleik, staðráðnir í að láta sverfa til stáls, og Haukur Eyþórsson átti efnilegt skot strax í upphafi sem sveif yfir markvinkilinn. Eftir það tóku gestirnir hreinlega öll völd á vellinum og Stólarnir komu boltanum varla yfir miðju nema með tilgangslitlum langspyrnum. Blönduósingurinn Kristinn Snjólfsson kom boltanum í mark Stólanna með glæsilegu skoti en hafði lagt boltann fyrir sig með hendinni þannig að markið stóð ekki. Skömmu síðar var annar Blönduósingur á ferðinni, Hilmar Kárason, og hann náði að dúndra boltanum í mark Tindastóls og gestirnir komnir með forystuna. Eftir þetta þéttu Sindramenn pakkann og færðu sig aðeins aftar. Stólarnir fengu því að láta boltann ganga aðeins en komust lítt áleiðis gegn vörn Sindra. Gestirnir fengu hins vegar 2–3 færi til að gera út um leikinn en Hlynur stóð sína vakt í markinu og hélt Stólunum inni í leiknum. Jöfnunarmark Tindastóls kom því eins og skrattinn úr sauðarleggnum á 85. mínútu. Jóhann Ólafsson átti sendingu inn á teig þar sem Haukur komst í boltann en varnarmaður Sindra keyrði í bakið á honum og framherjinn lá í valnum. Ben Griffiths tók vítið og skilaði boltanum af öryggi í markið. Bæði lið reyndu að tryggja sér sigur í lokin en höfðu ekki erindi sem erfiði. Lokatölur 1-1.

Flestir leikmanna Tindastóls áttu dapran dag í dag og í raun aðeins Bjarki Már og Hlynur sem að áttu góðan leik. Ekki er ólíklegt að leikmenn séu stressaðir í botnbaráttunni og það bitni á spilinu. Það er síðan skarð fyrir skildi að í liðið vantaði einn besta leikmann síðustu umferða, Pál Sindra, og breiddin í Tindastólsliðinu er ekki með þeim hætti að liðið þoli að missa sína bestu menn. Þá var Arnar Skúli meiddur og sömuleiðis Konni og lítið við því að gera. Stólarnir eru í 10. sæti, stigi frá fallsæti, og alveg ljóst að leikmenn verða að bretta upp ermarnar og gera betur í næstu leikjum. Þetta var leiðinlega bragðdauft í dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir