Brælan - Pjetur Torberg segir sögur af sjónum

Það eru margir kynlegir kvistir sem maður mætir í starfinu, Í haust höfðum við um borð skipstjóra sem var 75 ára og löngu kominn á eftirlaun. Karlinn hafði verið á sjó á sjötta áratugnum en farið í land um það leiti sem Bítlarnir urðu frægir, eftir það vann hann í landi á skrifstofu í fjörtíu ár.

Árið 2004 þegar karlinn varð sjötugur fékk hann þá flugu í hausinn,  að fara aftur á sjóinn. Á einhvern óskiljanlegan hátt fékk hann endurnýjaða sína fjörtíu ára gömlu skipstjóra pappíra og þar með hóf hann sinn umdeilda "seinni sjómanns feril".

Hans "seinni sjómanns ferill" endaði svo hjá okkur hér á Molo Trader síðast liðið haust. Það var ekki annað hægt en að undrast og dáðst að þessum gamla manni sem trossaði öll lögmál náttúrinnar þrátt fyrir sjóveiki, heyrnarleysi og hratt fallandi skammtíma minni.

Líkamlega var hann eins og unglingur, kvikur og snar í snúningum en heyrnarleysið var að gera okkur raddlausa. Svo var sjóveikin líka að drepa hann, ef eitthvað gerði að veðri og skipið "hjó" eða stampaði þá lagðist hann i rúmið. Eitt sinn í einni brælunni var það svo slæmt að ég varð að gefa honum sjóveikispillur. Eftir að hafa öskrað upp í eyrað á honum að hann ætti að taka tvær pillur, át hann þrjár og sofnaði.

  • Í skítabrælu á trillunni
  • ég máttarvöldin lofa
  • því karlinn er á pillunni
  • farinn að sofa
  • Dreymir hann í góðri trú
  • kellu sína heima
  • og sjóveikinni er hann nú
  • löngu búinn að gleyma
  •  

Trúaður var karlinn líka og það ekki lítið, hafði hann með sér á geisladiskum heilu guðþjónusturnar. Þeir voru spilaðir á hverjum degi upp í brú og alltaf á hæsta styrk, einnig hafði hann 2-3 diska með einhverri þeirri ofboðslegustu orgeltónlist sem ég hef heyrt. Hún skar í gegnum merg og bein, það var eins og maður væri staddur í miðri hrollvekju þegar karlinn fór að spila þetta. Sem betur fer "dó" geislaspilarinn eftir nokkurra daga misnotkun.

  • Á hverjum degi spilaði
  • faðir vor og fleira.....
  • þar til græjan bilaði
  • og þoldi ekki meira

Það er ekki alltaf einfalt með tölvuskrif þegar það vantar íslenska stafi í skipstölvuna, læt fylgja með litla limru sem mér datt í hug fyrir jól eftir að hafa eitt heilum degi í að skrifa.

  • Eg sit hjer ragna og bölva
  • og langar þig helst til að mölva
  • án íslendskra stafa
  • þig fjandinn má hafa
  • helv... andsk.... tölva
  •  

 

  • Bestu kveðjur
  • Pjetur Torberg Guðmundsson
  • Yfirstýrimaður
  • M/S Molo Trader

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir