Bölvað í beinni
Herra Hundfúll er viðkvæmur að eðlisfari og má ekkert aumt sjá né heyra. Í gærkvöldi settist hann í makindum niður fyrir framan imbakassann til að horfa á körfuboltaleik milli Aþenu og Tindastóls sem fram fór í Breiðholti. Eftir nokkurra mínútna áhorf gafst hann upp eftir að hafa hlustað á svívirðingar og munnsöfnuð þjálfara heimaliðsins í garð eigin leikmanna.
Þetta er svo dapurleg framkoma að það tekur engu tali og fyrir sjónvarpsstöð sem er vönd að virðingu sinni þá hlýtur þetta að vera afar bagalegt. Í raun væri lágmark að setja rautt merki upp í hægra hornið til að vara áhorfendur við – enda ekki fyrir viðkvæm eyru eins og áður sagði.
Nú er margt bannað í körfubolta, leikmenn mega til dæmis vart anda í átt að dómurum þá er dæmt tæknivíti, og í raun margt til fyrirmyndar í því. En er þá bara í lagi að þjálfarar öskri og niðurlægi eigin leikmenn þannig að glymur í beinni um allt land – eða skiptir það ekki máli og kemur virðingu leiksins í engu við?
Hundfúll lagðist í grúsk og samkvæmt hans upplýsingum þá hafa dómarar leyfi til að dæma tæknivíti á munnsöfnuð þjálfara í garð eigin leikmanna. En nennir einhver að taka slaginn?
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.