Björgunarsveitastarf er fyrir alla :: Björgunarsveitin Skagfirðingasveit
Fréttir af starfsemi björgunarsveita rata oft í fjölmiðla enda miðar hún að því að koma í veg fyrir slys og bjarga mannslífum og verðmætum. Í þeim tilgangi er öflugur hópur sjálfboðaliða til taks ef út af bregður, á nóttu sem degi, allt árið um kring, eins og segir á heimasíðu Slysavarnafélagsins Landsbjargar (SL), landssamtaka björgunarsveita og slysavarnadeilda á Íslandi.
Heilmikið hafa björgunarsveitir verið að bardúsa í sumar á ýmsum vígsstöðum og nú þegar líður að hausti fer undirbúningur fyrir vetrarstarfið að hefjast. Skagfirðingasveit á Sauðárkróki er ein af þeim sem starfa ötullega allt árið um kring og fékk Feykir eftirfarandi samantekt frá Hafdísi Einarsdóttur, formanni sveitarinnar eftir viðburðaríkt sumar en stærri viðburðir segir Hafdís orðnir sex talsins.
Sjóbjörgunaræfing á Siglufirði
Við byrjuðum sumarið á því að fara á sjóbjörgunaræfingu á Siglufirði. Þangað stefndu auk okkar Akureyringar og Húsvíkingar. Um klukkan 8.00 einn laugardagsmorgunn í júní lögðu fimm fræknir í’ann út Tröllaskagann. Á æfinguna voru samtals um tuttugu félagar mættir úr einingunum fjórum.
Tækjakostur var mikill; einn „rescue runner“ (eins og jetski en sérstaklega hannaður til sjóbjörgunar), einn slöngubátur, tveir harðbotna bátar um sex metrar á lengd og tvö björgunarskip.
Við hófum æfinguna á kaffibolla í húsnæði Stráka á Siglufirði, skelltum okkur svo út á Siglunes þar sem við fórum í land, prófuðum að kasta reyksprengjum úr bátunum, skjóta björgunarlínu í land og fleira.
Því næst sigldum við yfir í Héðinsfjörð þar sem við litum á neyðarskýli Stráka auk þess sem við börðum kross í fjallshlíðinni augum en þar fórst flugvél fyrir mörgum árum síðan.
Daginn enduðum við í pizzuveislu í húsnæði Stráka. Frábær dagur í alla staði og næsti hittingur ákveðinn áður en heim var haldið.
Landsmót unglingadeilda SL á Höfn í Hornafirði
Í sveitinni hjá okkur er starfrækt unglingadeildin Trölli en á landsvísu eru starfandi um 40 unglingadeildir. Landsmót deildanna er haldið annað hvert ár, til skiptis í hverjum landsfjórðungi og í ár var förinni heitið til Hafnar í Hornafirði.
Níu unglingar auk þriggja umsjónarmanna hófu för sína frá Sauðárkróki miðvikudaginn 22. júní til Hafnar og hittu þar fyrir 280 aðra unglinga auk um 70 aðra umsjónarmenn. Að auki voru tveir félagar okkar mættir til Hafnar sem tóku einnig þátt í mótinu.
Það er skemmst frá því að segja að bærinn var litaður rauður þessa helgi. Fjöldanum var skipt í átta hópa sem einkenndir voru með buffum, hver hópur með sinn lit. Á fimmtudegi og föstudegi fóru hóparnir á milli í ýmis verkefni og laugardagurinn var svo litaður í ýmsum þrautum og keppnisleikjum.
Engar dauðar stundir voru á mótinu þar sem alltaf var bryddað upp á leikjum, dansi og fleiru sem allir tóku þátt í. Sem dæmi má nefna hádegismatinn á laugardeginum þar sem allt í einu kom lag í hátalarakerfinu í íþróttahúsinu og stóðu þá þeir sem voru inni í salnum upp og dönsuðu í um það bil þrjátíu mínútur - kóngadans í kringum öll borðin, „Magarena“ við enda hússins, kúrekadansinn við langhlið hússins og svo framvegis.
Það er algjörlega ótrúleg stemning sem myndast á landsmóti unglingadeilda SL, klárlega eitthvað sem allir unglingar þyrftu að fá að upplifa að minnsta kosti einu sinni.
Hálendisgæsla í Dreka - norðan Vatnajökuls
Sunnudaginn 17. júlí fóru fimm manns á tveimur tækjum upp á hálendi, nánar tiltekið upp í Dreka, sem staðsettur er við Drekagil norðan Vatnajökuls, um átta kílómetra frá Öskju.
Hálendisvakt var sett á fyrir nokkrum árum til að stytta viðbragð á hálendinu og létta undir með þeim sveitum sem hafa hvað mest að gera í ferðamannastraumnum á sumrin.
Á fimmtudegi kom svo einn félagi í viðbót og á föstudegi fóru þrír félagar heim enda engin skuldbinding fyrir félaga að dvelja heila viku, sem er lengdin á vaktinni hjá SL.
Á hálendisvaktinni fengum við tækifæri til að keyra um hálendið og kíkja á afvikna staði. Við sáum rúnaletur við Jökulsá á Fjöllum, jökulhelli upp við Sigurðarskála, löbbuðum upp í Öskju, skoðuðum Víti og áttum notalegar stundir saman í skálanum.
Í hálendisgæslu sem þessari geta verkefnin verið fjölbreytt en í þetta skipti snéru þau að því að losa fasta bíla, ferja vatn í fjallaskála fyrir landverði, hlúa að sárum ferðamönnum og kanna ástand vega upp á sumaropnun þeirra.
Jeppaferð í Nýjadal
Mánudaginn 1. ágúst fóru sex félagar í ferð upp að Nýjadal. Ferðin tekur um þrjár klukkustundir í akstri í góðu færi. Þar hittum við á félaga okkar frá Akranesi sem sinntu þar hálendisgæslu þá vikuna. Við nutum veðurblíðu, grilluðum í skálanum, ókum svo rúnt í kringum svæðið og héldum heim.
Virkilega skemmtileg ferð þar sem ungir jafnt sem aldnir fengu tækifæri á að kynnast tækjunum okkar sem og landinu okkar fagra
Sjóbjörgunaræfing á Skagafirði
Þann 6. ágúst síðastliðinn mættu Súlur (Akureyri) og Húnar (Hvammstanga) til okkar á sjóbjörgunaræfingu. Veðrið var hið besta og rigndi ekki nema örfáum dropum.
Við hófum daginn á morgunverði í Sveinsbúð (húsnæðinu okkar). Þá tókum við okkur til og keyrðum út á bryggju.
Við byrjuðum á því að sigla út að Þórðarhöfða þar sem við sigldum undir um það bil 120 metra háu og þverhníptu bjarginu. Þvílík fegurð og við svo pínulítil í samanburði við bergið.
Því næst var förinni haldið að Málmey þar sem við stigum í land og röltum örlítið um eyjuna. Þá var bara Drangey eftir en þar lögðum við að bryggju, margir skiptu um föt og við röltum upp á eyjuna. Böddi á Fagranesi fór þar fyrir hópnum og sagði okkur hinar ýmsu sögur frá eyjunni; jafnt ævafornar sem nokkuð nýjar.
Við sigldum svo inní Baulubás á leiðinni okkar að Reykjum en þar grilluðum við hamborgara og skelltum okkur svo í Jarlslaugina.
Við renndum svo í höfnina á Sauðárkróki um klukkan 19 og gengum frá dótinu. Magnaður dagur þar sem veðrið gjörsamlega lék við okkur og allir héldu sáttir og sælir heim á leið.
Gosstöðvagæsla
Eins og öllum er kunnugt hófst eldgos á nýjan leik í byrjun ágúst á Reykjanesinu. Við höfum sinnt nokkrum fjarvöktum í vettvangsstjórn og alls hafa fjórtán manns farið suður í tveimur hópum að sinna gæslu úti sem og vettvangsstjórn. Samtals telja tímarnir um 350 klukkustundir og erum við mjög stolt af framlagi okkar.
Það er gott að geta haldið suður á leið og létt undir með félögum SL á höfuðborgarsvæðin en nú þegar hafa um fimmhundruð manns komið að aðgerðinni, þá rúmu viku sem hún hefur verið í gangi. Gosgæslan er gríðargóð reynsla í reynslubankann og frábært hópefli.
Það er mjög gaman að vera hluti af hópi fólks sem sinnir starfinu af metnaði, ánægju og áhuga eins og sést hér að ofan. Að sumrinu loknu hafa félagar Skagfirðingasveitar sinnt starfinu á einhvern hátt í samtals um fimm þúsund klukkustundir á árinu sem gera samtals um 125 vinnuvikur, sem er eins og full vinna eins manns í um tvö og hálft ár! Samt sem áður erum við einungis búin með tvo þriðju starfsársins.
Framundan eru skemmtilegir mánuðir fullir af viðburðum. Við munum sækja landsfund umsjónarmanna unglingadeilda á Akureyri í september, halda áfram að vinna við gosvaktir, fara með hóp félaga á Björgun í október (Björgun er alþjóðleg ráðstefna sem SL heldur annað hvert ár í Hörpu), fulltrúaráðsfund í lok nóvember auk vikulegra æfinga, námskeiða, kaffihittinga og svo mætti lengi telja.
Það er alltaf pláss fyrir nýja félaga í Skagfirðingasveit og vil ég hvetja alla þá sem hafa einhvern tímann leitt hugann að því að ganga í björgunarsveit að hafa samband við mig eða Facebook-síðu sveitarinnar. Björgunarsveitastarf er fyrir alla!
Með bestu kveðjum,
Hafdís Einarsdóttir, formaður
Björgunarsveitin Skagfirðingasveit á Sauðárkróki var stofnuð árið 1965. Sveitin hefur á þeim tíma sinnt leit, björgun og ýmis konar verkefnum sem hafa fallið til. Fyrir þá sem vilja styrkja sveitina er reikningsnúmerið 310-26-112 og kennitalan 540782-0329.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.