Bjarni Jó brá fæti fyrir Húnvetninga
Húnvetninga dreymdi um endurkoma líka þeirri sem Rocky átti gegn Ivan Drago í Rocky IV forðum þegar lið Selfoss heimsótti Blönduós í gær. Þar hóf lið Kormáks/Hvatar síðari umferðina í 2. deildinni en í upphafi móts stálu Selfyssingar öllum stigunum sem í boði voru í 1-0 sigri á Selfossi. Lífið er sjaldnast eins ig Hollywood mynd og enginn endurkomusigur fékkst í sunnanvindinum. Topplið Selfoss nældi aftur í þrjú stig en eftir markalausan fyrri hálfleik settu þeir tvö í þeim síðari. Lokatölur því 0-2.
Samkvæmt Aðdáendasíðu Kormáks þá var jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik en Uros markvörður þurfti aðeins einu sinni að sýna snilli sína, varði þá aukaspyrnu gestanna. Heimamenn áttu sömuleiðis sína sénsa en ekki tókst að koma boltanum í markið.
Gonzalo Leon kom gestunum yfir á 61. mínútu eftir klafs í teig Húnvetninga og þá þurftu heimamenn að stíga upp. Það var því nokkuð gegn gangi leiksins sem Leon bætti við öðru marki Selfoss á 77. mínútu en það kom úr víti sem dæmt var eftir peysutog. Ekki tókst liðsmönnum Kormáks/Hvatar að koma til baka og þar með fóru Bjarni þjálfari Jó og félagar suður á Kótelettuna með stigin þrjú.
Selfyssingar er því áfram á toppi deildarinnar en lið Húnvetninga er nú í tíunda og þriðja neðsta sæti með 12 stig, með heldur verri markatölu en KFG. Liðið hefur aðeins gert tíu mörk í 12 leikjum en á sama tíma aðeins fengið á sig 17 mörk. Næstu tveir leikir eru gríðarlega mikilvægir en fyrst heimsækja Húnvetningar botnlið Sandgerðinga og þar á eftir koma liðsmenn Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í heimsókn á Hvammstanga.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.