Bitlausir Stólar máttu sætta sig við jafntefli
Tindastóll tók á móti liði Hafnfirðingum í liði KÁ í gærdag í brakandi blíðu á Sauðárkróksvelli. Leikurinn var frekar bragðdaufur lengi vel en hiti færðist í kolin þegar leið að leikslokum en heimamönnum tókst ekki að knýja fram sigur þrátt fyrir nokkra pressu. Kom þar helst til hálf neyðarlegt bitleysi fyrir framan markið en Stólunum virðist algjörlega fyrirmunað að næla sér í eldheitan framherja. Lokatölur 1-1.
Leikurinn í heildina var frekar jafn og varnarleikur beggja liða traustur. Stólarnir voru heldur meira með boltann og sýndu oft ágæt tilþrif úti á vellinum en hraðann vantaði í spilið og fátt um opnanir – oft vantaði þó aðeins herslumuninn. Fyrsta mark leiksins kom á 21. mínútu en þá náðu Stólarnir að opna vörn gestanna hægra megin og Addi Ólafs skallaði góða fyrirgjöf glæsilega í netið. Eftir þetta gerðist í raun fátt markvert fram að hléi þrátt fyrir að bæði lið kæmu sér í ágæta stöðu.
KÁ-ingar komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og ógnuðu jöfnunarmarki. Það kom á 58. mínútu eftir fast leikatriði en eftir smá klafs í teignum náði Bjarki Sigurjónsson góðu skoti sem hafnaði í marki heimamanna. Næstu mínútur reyndu bæði lið hvað þau gátu en þrátt fyrir mörg ágæt upphlaup heimamanna voru þeir ekki líklegir til að bæta við marki. Leikurinn opnaðist nokkuð þegar Dom Furness kom inn á þegar 20 mínútur voru til leiksloka og sóknarleikur Stólanna þyngdist. Bestu sénsarnir voru langskot en þrátt fyrir ótal fyrirgjafir og upphlaup upp kantana þá gekk illa að finna samherja fyrir framan markið.
Niðurstaðan því 1-1 jafntefli sem gerir lítið fyrir bæði liðin. Tindastóll er nú í fimmta sæti 4. deildar en á einn leik til góða sem gæti lyft liðinu upp í þriðja sæti ef hann vinnst. Ýmir og Hamar eru hins vegar sem stendur í efstu tveimur sætum deildarinnar með dágott forskot á liðin fyrir neðan. Næstu tveir leikir Tindastóls eru gegn liði Skallagríms. Þær viðureignir gáfu eitt stig í fyrra en ætli Stólarnir að blanda sér í toppbaráttu deildarinnar þá þurfa þeir að gera miklu betur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.