Birgitta, Elísa og Laufey semja við Tindastól
Nú síðustu vikurnar hefur knattspyrnudeild Tindastóls verið með samningspennann á lofti og stutt er síðan þrjár stúlkur skrifuðu undir samning og munu sýna leikni sína í Bestu deild kvenna með liði Tindastóls í sumar. Þetta eru þær stöllur frá Skagaströnd, Birgitta Rún og Elísa Bríet sem eru bráðefnilegar og svo Króksarinn Laufey Harpa sem komin er í hóp reynslubolta. Þetta verða teljast hinar bestu fréttir.
Laufey Harpa Halldórsdóttir verður 24 ára á árinu en hún hefur spilað rúmlega 140 leiki með liði Tindastóls og þá jafnan í stöðu vinstri bakvarðar eða örlítið framar. Í tilkynningu frá knattspyrnudeildinni segir: „Laufey Harpa er snúin heim. Laufey snéri heim á síðasta tímabili á láni frá Breiðablik, þar sem hún var samningsbundin, en að loknu síðasta tímabili rann samningur hennar á enda við Kópavogsliðið og því ekkert annað í stöðunni en að skrifa undir við uppeldisklúbbinn.“
Elísa Bríet Björnsdóttir, fædd árið 2008, hefur skrifað undir þriggja ára samning við Tindastól. Á síðasta tímabili kom Elísa inn í hópinn hjá mfl Tindastóls og tók þátt í 15 leikjum ásamt því að spila með sameiginlegum liðum í 2. og 3. flokks TIndastóls/KHF. Þrátt fyrir ungan aldur var Elísa mikilvægur leikmaður í liði Tindastóls síðasta sumar en hún kom inn í byrjunarliðið í kjölfar meiðsla Hrafnhildar og Bergljótar og stóð heldur betur fyrir sínu.
Þá hefur Birgitta Rún Finnbogadóttir, fædd árið 2008, skrifað undir samning við Tindastól en hún semur til þriggja ára eða út árið 2026. Skagstrendingurinn efnilegi kom inn í mfl kvk á síðasta tímabili rétt eins og Elísa Bríet en þær hafa báðar spilað upp yngri flokka í sameiginlegu liði Tindastóls/KHF. „Birgitta er ung að árum en hefur fengið gríðarlegt lof fyrir frammistöðu sína á vellinum og á framtíðina fyrir sér,“ segir í tilkynningu knattspyrnudeildar en rétt eins og Elísa vinkona hennar þá eru hún óttalaus og áræðin á vellinum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.