Bílavesen - Áskorendapenninn Bryndís Þóra Bjarman, brottfluttur Króksari

Ég vil byrja á að þakka vinkonu minni, fyrrum nágranna á Sauðárkróki og frænku, Önnu Elísabetu Sæmundsdóttur fyrir að skora á mig – eða ekki. Ég sagði óvart strax „já“ þegar hún bað mig um að taka við keflinu, enda hef ég alltaf verið svo hlýðin… og löghlýðin, sem tengist að einhverju leyti því efni sem ég skrifa um hér að neðan.

Ég hef ekki unnið mér margt til frægðar á lífsleiðinni – engin met að neinu tagi liggja eftir mig og engin sérstök afrek sem ég get státað mig af. Þegar ég hitti vini mína, saumaklúbbssystur eða gamla skólafélaga, þá eru samt gjarnan rifjuð upp ýmis „afrek“ mín í gegnum tíðina. Þessi sem kalla mætti vafasöm og varla neitt sem menn hreykja sér af.

Hér kemur lýsing á einu slíku:
Fyrir u.þ.b. 15 árum var ég í saumaklúbbi ásamt vinkonum mínum úr MA. Við vorum staddar hjá einni okkar sem þá bjó í Grafarvogi. Ég man að það var eitt af þessum leiðinda haustveðrum, rok og ausandi rigning. Ég lagði bílnum mínum fyrir utan blokkina og hljóp inn í hlýjuna. Við áttum saman góða kvöldstund að vanda, mikið skrafað og hlegið. Frekar lítið saumað samt.

Mig minnir að þetta hafi verið á fimmtudegi og ég ætlaði ekki að stoppa mjög lengi því ég þurfti að mæta snemma í vinnuna daginn eftir. Ég var því meðal þeirra fyrstu til að kveðja. Þegar út kom fann ég ekki bílinn minn hvernig sem ég leitaði. Ennþá var mjög hvasst og hellirigning og ég hljóp 2svar í kringum blokkina og leitaði af mér allan grun. Bíllinn var horfinn – einhver var búinn að stela bílnum mínum! Jesús, í þessu hafði ég aldrei lent. Ég var í sjokki og holdvot í þokkabót.

Ég fór inn og sagði vinkonunum tíðindin og var virkilega miður mín. Húsráðandinn bauðst til að keyra mig niður á lögreglustöð svo ég gæti tilkynnt stuldinn. Á leiðinni niður í bæ hringdi ég á lögreglustöðina og sagði farir mínar ekki sléttar, að bílnum mínum, svörtum Hyundai, hefði verið stolið. Og hann væri meira að segja merktur mér; BINNA. Hver stelur bíl með einkanúmeri? Spurði ég hneyksluð. Eins og það væri eitthvað ólíklegra!

Að þessu símtali loknu hringdi ég í þáverandi eiginmann minn til að segja honum váfréttirnar. Ég vakti hann upp og lýsti með miklum tilþrifum í hverju ég hafði lent. Þegar ég var búin að tala í nokkrar mínútur og var loksins þögnuð, varð allt hljótt á línunni. Að lokum sagði maðurinn minn: „Áttu við að mínum bíl hafi verið stolið? Þinn er hérna inni í bílskúr!“ Úppss! Ég hafði sem sagt leitað eins og bavíani að mínum bíl en verið á öðrum… Við vinkonurnar emjuðum af hlátri og þurftum að leggja bílnum úti í kanti á meðan við jöfnuðum okkur.

Erfiðast var samt að þurfa að hringja aftur niður á lögreglustöð og tilkynna að bílnum mínum hefði í raun ekki verið stolið – að ég hafi verið á öðrum bíl! Ég held að lögreglumaðurinn hafi viljað hugga mig smá, hann skynjaði eflaust hvernig mér leið. Hann sagði föðurlega við mig: „Góða mín, þetta kemur alltaf fyrir öðru hverju – en reyndar frekar hjá eldra fólki!“

Ég skora á móður mína, Guðbjörgu Bjarman, að skrifa næsta pistil. Hún er feykigóður penni!

Áður birst í 18. tbl. Feykis 2021.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir