Bikarslagur í Síkinu í kvöld
Það er körfubolti á Króknum í kvöld en þá mætast lið Tindastóls og Hauka í 32 liða úrslitum VÍS bikarsins. Reikna má með hörkuleik því Hafnfirðingar hafa unnið báða leiki sína í Subway-deildinni hingað til; lögðu lið Hattar í fyrstu umferð og endurtóku leikinn þegar Þór Þorlákshöfn kom í heimsókn. Leikurinn í Síkinu hefst kl. 19:15 en hann verður einnig sýndur í Sjónvarpinu og þá væntanlega á sparirásinni.
Reikna má með að lið Tindastóls hafi endurheimt alla nema Arnar úr meiðslum og Drungilas stígur aftur á gólfið eftir bann. Í öðrum leikjum kvöldsins mætast Álftanes og Keflavík, ÍA og Selfoss, Njarðvík og Þróttur Vogum og loks Valur og Breiðablik.
Fjórir leikir fóru fram í hinum svokölluðu 32 liða úrslitum í gær. Stjarnan lagði Þór á Akureyri af öryggi og Höttur henti Þór Þorlákshöfn út úr bikarnum eftir spennandi leik á Egilsstöðum. Þá mættust KR og KR b en í b-liðinu voru tveir fyrrum Tindastólsmenn; Brynjar Þór og hinn síungi Skarphéðinn Freyr Ingason (45). Það dugði þó ekki til sigurs og a-liðið fór áfram. Þá er ekki annað að sjá en að Sindri hafi gefið sinn leik gegn liði ÍR.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.