Bibbi smekkur heimsóttur
Við Björn Einarsson, Bibba smekk, var einhverju sinni sagt að hann væri mikill smekkmaður og tók hann þetta svo bókstaflega að hann hóf í kjölfarið að koma sér upp smekksafni. Feykir hitti Bibba smekk síðastliðinn laugardag.
Hvernig gengur að safna? -Nú það gengur svona ljómandi vel að herbergið þar sem ég geymi safnið er orðið smekkfullt, segir Bibbi hlæjandi um leið og hann vísar blaðamanni inn í stórt herbergi inn af bílskúrnum. Þar kennir margra grasa eða öllu heldur smekka.
Er fólk að senda þér smekki? –Jájá, það gerist, en það kemur nú alveg fyrir að ég gangi í hús og spyrji kannski svona; hafið þér góðan smekk frú mín góð eða er þetta smekklaust heimili? Þetta brýtur ísinn og fólk tekur mér oftar en ekki vel, jafnvel þó það hafi engan smekk.
Hver er uppáhalds smekkurinn þinn? -Ja það er nú þessi hvíti hreini hérna sem mamma mín lét mig hafa. Hún hafði svo einfaldan smekk blessunin. Hún valdi aðeins það besta.
Er einhver skemmtileg saga sem þú vilt segja okkur í lokin? -Ég veit það nú ekki en jú, það var eitt sinn að við félagarnir fórum á þorrablót, lenti ég þá í því að verða alveg ... já alveg smekkfullur og var farinn að sulla áfenginu niður á mig. Ég var með smekk og hann bjargaði því sem bjargað varð en samt fór það svo að smekkurinn varð blautur í gegn og höfðu menn á orði að þetta sull hafi nú verið einum of mikið fyrir minn smekk!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.