Besta liðið í Bestu deildinni gaf engin grið
Stólastúlkur hafa ekki riðið feitum hesti frá viðureignum sínum gegn liði Breiðabliks í gegnum tíðina. Liðin hafa svo sem ekki mæst oft enda Blikar jafnan verið með eitt sterkasta liðið í efstu deild kvennaboltans en það er fyrst nú síðustu árin sem lið Tindastóls hefur náð þeim eftirtektarverða árangri að spila með þeim bestu. Stólastúlkur heimsóttu Blikaliðið í Kópavog nú á þriðjudagskvöldið og því miður reyndust heimastúlkur númeri of stórar fyrir okkar stúlkur sem máttu sætta sig við 4-0 tap.
Það var hin skagfirsk ættaða Agla María Abertsdóttir sem reyndist hvað erfiðust en hún gerði þrjú mörk í leiknum eftir að hafa strítt við hálfgerða markaþurrð í sumar. Blikar pressuðu lið Tindastóls hátt uppi á vellinum strax frá byrjun og uppskáru mark strax á 7. mínútu en þá lúrði Agla María á fjærstöng og renndi boltanum í markið. Vigdís Lilja Kristjánsdóttir gerði annað markið á 34. mínútu og staðan 2-0 í hálfleik.
Hafi Stólastúlkur ætlað að láta sverfa til stáls í síðari hálfleik þá runnu þau áform út í sandinn eftir einnar mínútu leik því þá var Agla María búinn að klína knettinum í sammarann hjá Melissu, frábær afgreiðsla. Hún fullkomnaði þrennuna skömmu fyrir leikslok þegar hún fékk boltann inn á teig og renndi honum í fjærhornið.
Donni þjálfari var ekki sáttur við sitt lið að leik loknum, fannst liðið ekki halda nógu vel í boltann, en benti á að lið Breiðabliks væri best spilandi liðið og besta liðið á landinu þannig að þó svo að lið Tindastóls færi í alla leiki til að vinna þá, þá hafi ekki margir reiknað með góðum úrslitum á Kópavogsvelli.
Næsti leikur Tindastóls er í Kaplakrika Hafnfirðinga en þar bíður spútniklið Bestu deildarinnar, FH, eftir Stólastúlkum. Liðin fóru bæði upp úr Lengjudeildinni síðasta haust og gerðu 0-0 jafntefli í fyrri leik liðanna í sumar. Með góðu leikplani og einbeitingu ætti að vera hægt að næla í stig á sunnudaginn. Þrátt fyrir að FH sé spútniklið deildarinnar er liðið aðeins með sex stigum meira en Tindastóll, eru í fimmta sæti með 17 stig en okkar stúlkur eru í áttunda sæti með 11 stig. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.