Bergþór sækist eftir öðru sæti hjá Sjálfstæðisflokknum í NV – kjördæmi.

Bergþór Ólason, fyrrverandi aðstoðarmaður samgönguráðherra, hefur ákveðið að bjóða sig  fram til 2. sætis í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi vegna Alþingiskosninganna í vor.
Bergþór tilkynnti þessa ákvörðun sína á kjördæmisráðsþingi Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi sem haldið var í Borgarnesi sl. laugardag.

„Það eru spennandi tímar framundan í stjórnmálunum, sjaldan hafa menn horfst í augu við jafn risavaxin verkefni og nú á hinum pólitíska vettvangi.  Nú ganga sjálfstæðismenn til prófkjörs í öllum kjördæmum og kjósa flokknum nýja forystu á landsfundi.  Þegar þessi endurnýjun verður um garð gengin tel ég að gömlu sjálfstæðisgildin verði í forgrunni á nýjan leik og að Sjálfstæðisflokkurinn mæti öflugur til kosninga í lok apríl.  Tengsl mín við kjördæmið ásamt þekkingu og skilningi á málefnum þess tel ég að muni styrkja listann og hjálpa til við að tryggja okkur góða kosningu í vor. Í þennan slag vil ég gefa kost á mér“

Bergþór er fæddur á Akranesi og er búsettur þar, en ólst upp í Borgarnesi.  Hann gekk í Grunnskóla Borgarness og síðan í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Að stúdentsprófi loknu lá leiðin í Háskóla Íslands þar sem hann nam viðskiptafræði við Viðskipta- og hagfræðideild. Þar var hann virkur í félagslífi viðskiptadeildar.  Sat í stjórn Mágusar.  Var formaður Íslandsdeildar NESU sem eru samtök norrænna viðskipta- og hagfræðinema ásamt því að vera fulltrúi nemenda á deildarfundum. Jafnframt var hann virkur í starfi Vöku.

Eins og fyrr sagði er Bergþór fyrrverandi aðstoðarmaður samgönguráðherra en því til viðbótar hefur hann meðal annars starfað sem lögregluþjónn í sumarafleysingum, hjá Heklu, Lýsingu og Kaupþingi en í dag er hann sjálfstætt starfandi ráðgjafi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir