Baráttusætið
Á morgun göngum við til kosninga og vonandi verður þú kjósandi góður búinn að fara vel yfir málin, kynna þér hvað flokkarnir hafa fram að færa og velja það fólk sem þú telur að vinni af sem mestum heilindum fyrir samfélagið okkar.
Eftir að ég fékk boð um að taka 4. sæti á lista Framsóknar í Skagafirði þá hófst ég strax handa við að reyna að setja mig inn í sem flest málefni sveitarfélagsins. Þar á ég enn nokkuð í land og ég held reyndar að það taki töluverðan tíma að setja sig inn í öll þau fjölmörgu verkefni sem sveitarfélagið hefur með höndum. Það er þó nauðsynlegt að hafa innsýn í sem flest málefni en geta á sama tíma sérhæft sig í öðru og vera virkilega góður í þeim málaflokkum sem þú brennur fyrir.
Það hefur verið mikill skóli að fara um héraðið okkar núna í aðdraganda kosninga, heyra í kjósendum, taka þátt í framboðsfundum og fylgjast með reyndari frambjóðendum. Það eru mikil forréttindi að fá að taka þátt í verkefni sem þessu og vonandi er vegferðin bara rétt að byrja hjá mér því ég tel að ég hafi fullt erindi í sveitarstjórnarmálin og ég hafi þá kosti sem þarf til að fylgja málum eftir. Ég tel mig jafnframt vera góðan í mannlegum samskiptum, kunna að hlusta og meðtaka góðar hugmyndir, auk þess að hafa mikinn vilja til að koma góðum verkefnum til framkvæmda.
Ég er sannfærður um að 4. sætið hjá Framsókn er baráttusæti en til þess þarf ég á hjálp þinni að halda. Ég heiti því að vinna vel og heiðarlega og leggja mig virkilega fram í þágu þess að gera okkar góða samfélag enn betra
Þú þarft að þora til að skora!
X-B fyrir sterkari Skagafjörð
Siggi Bjarni
4. sæti á lista Framsóknar í Skagafirði
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.