Bara ýtt á rec og rúllað af stað – Spjallað við Eystein Ívar hlaðvarpara
Nú eru allir sem vettlingi geta valdið að ýmist varpa öndinni út um allt eða að hlusta á andvörpin – já eða hlaðvörpin. Í nútímanum geta allir verið með dagskrárvaldið en eitt er að búa til hlaðvarp og annað að fá hlustun. Feykir heyrði í gömlum kunningja, Eysteini Ívari Guðbrandssyni, sem hefur verið að gera það gott á þessum hlaðvarpsmiðum og spurði hann aðeins út í hvað hann væri að brasa á þessum síðustu og verstu.
„Heyrðu já, ég er sem sagt í tveimur hlaðvörpum sem heita Allt milli himins og fjarðar og Frekjukastið,“ segir Eysteinn og heldur áfram. „Allt milli himins og fjarðar er skemmti- og spurningaþáttur um Skagafjörð og tengjast allar spurningarnar fallega firðinum okkar og einnig fáum við til okkar fólk úr firðinum eða sem tengist firðinum. Frekjukastið myndi ég segja að væri eintómur fíflagangur hjá ungum mönnum sem hafa þekkst mjög lengi og hafa gert margt saman í gegnum tíðina.“
Hverjir eru með þér? „Við erum þrjú sem sjáum um þáttinn Allt milli himins og fjarðar; það er semsagt ég og hún Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir (móðir mín) sem erum þáttastjórnendur og svo er það sá sem heldur þessu öllu saman, hann Sigfús Arnar Benediktsson, sem er spurningahöfundur, stigavörður og tæknistjóri. Í Frekjukastinu erum við fjórir félagar sem sjáum um þáttinn, það er semsagt ég, Arnar Bjarki, Jóhann Friðrik og Víkingur Ævar.“
Hvar nálgast maður þessi hlaðvörp? „Hlaðvörpin er hægt að nálgast á Spotify, síðan er Allt milli himins og fjarðar útvarpaður á útvarpsstöðinni FM Trölla.“
Er mikil vinna á bak við það að setja saman hlaðvarp? „Ja, það mætti segja að það er heilmikil vinna á bak við að setja saman spurningaþátt en heiðurinn á Fúsi spurningahöfundur allan daginn með þessar frábæru spurningar. Ég myndi nú ekki segja að það væri mikill undirbúningur á bak við hinn þáttinn en það er yfirleitt bara ýtt á rec og rúllað af stað í einhverja vitleysu.“
Hvernig hefur þetta gengið? „Það má segja að þetta hafi gengið vonum framar, báðir þættirnir, að mínu mati. Það eru komnir fjórir þættir af Allt milli himins og fjarðar og mig minnir að það séu komnir sjö þættir af Frekjukastinu og við stefnum á að halda þessu áfram sem lengst, meðan við allavega höfum gaman að þessu og fólkið sem hlustar.“
Er alltaf hægt að setjast niður og spjalla? „Ja, ég myndi nú segja það, þetta er í rauninni eins og þú og ég værum að spjalla bara um veðrið í dag og hvað var í sjónvarpinu í gær, eini munurinn er að það er ýtt á rec og allt sem þú segir tekið upp.“
Hver er galdurinn við gott hlaðvarp? „Galdurinn við gott hlaðvarp... váá, þetta er góð spurning. Ætli það sé ekki að hafa gaman að því sem þú gerir, þá vonandi skilar það sér til hlustandans... en það gæti vel verið að það sé eitthvað annað... en þá á ég bara eftir að komast að því.“
Hvaða hlaðvörp hlustar þú helst á sjálfur? „Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá hlustaði ég ekki mikið á hlaðvörp fyrr en ég byrjaði sjálfur að gera hlaðvörp. En ég hlusta mikið á Halló Tindastóll og hef virkilega gaman að því og mæli eindregið með því, síðan hef ég gaman að alls konar viðtalsþáttum, sérstaklega að fara yfir lífið og tilveruna.“
Er eitthvað nýtt og spennandi á döfinni? „Eitthvað á döfinni segirðu, heyrðu já, það er bara vinna í félagsmiðstöðinni Húsi Frítímans og halda áfram með hlaðvörpin. Síðan í des mun ég taka þátt í tveimur jólatónleikum, Jólin heima og Jólin í Gránu, og er ég virkilega spenntur fyrir því. Annars býður yfirleitt nýr dagur upp á ný og skemmtileg verkefni sem maður tekur fagnandi,“ segir Eysteinn réttilega í lokin.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.