Azamara Journey kemur til hafnar á Króknum

Bakkað í höfn. MYND: ÓAB
Bakkað í höfn. MYND: ÓAB

Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins var að leggja að bryggju á Sauðárkróki nú um tíuleytið í morgun í norðlenskri þoku og norðan sex metrum. Hitinn sem gestum er boðið upp á að þessu sinni eru kaldar átta gráður en von er á fleiri hitastigum og sólskini upp úr hádegi þannig að vonandi er allt gott sem endar vel. Að þessu sinni er það Azamara Journey sem kemur í höfn en skipið getur hýst á sjöunda hundruð farþega.

Skipið er 181 metri að lengd, eða ríflega einn og hálfur fótboltavöllur, það er 26,5 metrar að breidd og var bakkað inn í höfnina af starfsmanni Sauðárkrókshafnar. Azamara Journey er væntanlegt til hafnar að nýju miðvikudaginn í næstu viku en alls verða heimsóknir skemmtiferðaskipa á Krókinn fimm í sumar; þrár í júlí, ein í ágúst og sú síðasta í september.

Að sögn Hebu Guðmundsdóttir, verkefnastjóra hjá sveitarfélaginu Skagafirði, þá er ýmislegt í boði fyrir farþegana ef þeir kjósa að stíga í land, eins og til dæmis skipulagðar ferðir á vegum ferðaþjónustuaðila í Skagafirði. Sumir kjósa að fara út í Drangey, aðrir á hestbak eða í 1238 eða skoða sig um á Króknum en nú er m.a. boðið upp á leiðsögn um bæinn.

Svo er ekki ólíklegt að nýjasti bæjarbúinn, Arnold (I'll be back), njóti talsverðrar athygli gestanna þar sem hann flatmagar á flotbryggjunni enn og aftur. Heba var spurð í gríni hvort rostungurinn hefði verið pantaður og sagði hún svo vera. „Allt samkvæmt áætlun.“

Azamara Journey lætur úr höfn klukkan fimm í dag.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir