Auknir möguleikar á gagnaveri
Vísir.is segir frá því að Greenstone ehf., félag í eigu íslendinga, hollendinga og bandarískra aðila, hafi ritað undir samning við við bandarískt stórfyrirtæki um uppbyggingu gagnavera á Íslandi. Áður hafði fyrirtækið skrifað undir viljayfirlýsingu við sveitarfélög í Austur Húnavatnssýslu um mögulegt gagnaver sem tengdist Blönduvirkjun.
Áform eru uppi um að framkvæmdir geti hafist á þessu ári og að fyrstu gagnaverin verði komið í notkun í janúar 2011.
Í tilkynningu frá Greenstone segir að fyrirtækið hafi frá árinu 2007 unnið að því að meta möguleika á því að byggja og reka gagnaver samhliða því að kanna hvort vilji sé fyrir því hjá erlendum stórfyrirtækjum að staðsetja sig hér á landi. „Aðilar þeir sem standa að baki Greenstone hafa byggt og rekið gagnaver beggja vegna atlantsála, hafa víðtæka þekkingu á þessum markaði og búa yfir getu til að sinna aðilum sem krefjast mikils öryggis á þessu sviði."
Þá segir að sú fjárfesting sem um ræðir geti numið allt að 200 milljörðum króna og krefjast gagnaverin um 300 MW orku og er möguleiki á að skapa allt að 300 ný bein störf á næstu árum auk fjölda afleiddra starfa. „Sem fyrr er forsenda þessarar uppbyggingar lagning ljósleiðara frá Bandaríkjunum til Íslands en Greenstone er í samvinnu við bandaríska fjárfesta í því efni. Samið verður við Farice um gagnatengingar frá Íslandi til Evrópu og unnið er að undirbúningi samninga um raforku og raforkuflutninga."
„Velvilji íslenskra stjórnvalda og einlægur vilji margra annarra aðila hér á landi til að ná árangri hefur komið þessu verkefni á það stig sem það nú er. Næstu vikur fara í nánari samningaviðræður og munu sérfræðingar þess fyrirtækis, sem Greenstone hefur nú samið við, koma til landsins til hitta alla aðila er að málinu koma og að ákvarða um framhaldið ásamt fulltrúum og erlendum sérfræðingum Greenstone á þessu sviði," segir að lokum í tilkynningunni.
Feykir.is sagði frá því fyrir skemmstu að gagnaver við Blönduvirkjun væri einn af fjórum möguleikum sem eftir stæðu hjá Greenstone
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.